Háskóli Íslands

Styrkur til meistaranema í íslenskri málfræði við HÍ

Kristín Lena Þorvaldsdóttir, meistaranemi í íslenskri málfræði, hefur hlotið viðurkenningu úr Minningarsjóði dr. phil. Jóns Jóhannessonar. Styrkurinn nemur 200.000 þúsund krónum.

Meistaraverkefni Kristínar Lenu Þorvaldsdóttur, Próform, áttbeyging og hólf: Hugtakanotkun í málfræði táknmáls, felst í samræmingu og endurskoðun á hugtakanotkun í táknmálsfræði. Verkefnið liggur því á mörkum tveggja fræðasviða, táknmálsfræði og íslenskrar málfræði. Hugtök í táknmálsfræði eru mörg hver fengin að láni úr íslenskri málfræði og henta misvel. Önnur eru fengin úr erlendum málum og löguð að íslensku. Markmið rannsóknarverkefnisins er að taka saman þau grunnhugtök sem notuð hafa verið fram að þessu innan táknmálsfræðinnar og samræma, endurskoða og leggja í nýyrðasmíð þar sem hennar er þörf. Mörg hugtök í íslenskri málfræði eru almenn málvísindaleg hugtök og eiga því jafnt við um raddmál og táknmál. Þegar ólík hugtök eru notuð yfir sama fyrirbæri getur það valdið þeim misskilningi að þau eigi við ólík fyrirbæri en í grundvallaratriðum er eðli raddmála og táknmála hið sama. Skráning hugtaka og skilgreiningar á þeim verður unnin í samstarfi við Íslenska málfræðifélagið og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og því gefst kostur á að samræma hugtakanotkun í íslenskri málfræði og táknmálsfræði eftir því sem ástæða er til. Verkefnið stuðlar að hagnýtri nýsköpun fyrir Háskóla Íslands og kemur skilgreining hugtaka m.a. til með að nýtast við greinaskrif, íðorðasöfn og kennslu. Niðurstaða verkefnisins verður nothæf tilraunaútgáfa hugtakabanka sem þróaður verður áfram á grundvelli fræðilegrar umræðu í kennslu og greinaskrifum við Háskóla Íslands.

Tilgangur Minningarsjóðs dr. phil. Jóns Jóhannessonar er að veita stúdentum eða kandídötum í íslensku og sagnfræði styrki til einstakra rannsóknarverkefna sem tengjast námi þeirra. Sjóðurinn var stofnaður árið 1983 til minningar um prófessor Jón Jóhannesson með gjöf ekkju prófessors Jóns, frú Guðrúnar Helgadóttur, og með minningargjöfum samstarfsmanna, nemenda, ættingja og vina hans.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is