Auglýst er eftir umsóknum um styrk úr Sjóði Sigríðar Lárusdóttur á árinu 2019. Að þessu sinni verður styrkur veittur til rannsókna á sviði bæklunarlækninga með sérstakri áherslu á rannsóknir á stoðkerfissjúkdómum og göllum í mjöðm.
Umsóknarfrestur rennur út 1. apríl 2019.
Tilgangur Sjóðs Sigríðar Lárusdóttur er, samkvæmt skipulagsskrá, að efla rannsóknir á sviði bæklunarlækninga. Sérstök áhersla er lögð á rannsóknir á meðfæddum göllum í mjaðmarlið, svo sem ættgengi þeirra, tíðni og afleiðingum.
Heildarfjárhæð úthlutaðra styrkja er allt að kr. 1.500.000,-
Í umsókninni þurfa eftirtalin atriði að koma fram:
1. Nafn umsækjanda, kennitala, heimilisfang, sími og virkt netfang.
2. Helstu atriði úr náms- og starfsferli umsækjanda.
3.Heiti rannsóknaverkefnisins, markmið og vísindalegt gildi þess. Hnitmiðuð lýsing á verkefninu, 2-3 málsgreinar, sem verður nýtt til almennrar umfjöllunar og kynningar hljóti verkefnið styrk.
4. Veigameiri lýsing á rannsóknaverkefninu, ein blaðsíða að hámarki. Fram komi hvernig verkefninu er ætlað að auka við núverandi þekkingu á efninu og hvernig verkefnið samræmist markmiðum sjóðsins. Sé ætlunin að óska eftir stuðningi við hluta af stærra verkefni skal koma fram til hvaða þáttar sótt er um.
5. Tímaáætlun, fjárhagsáætlun og yfirlit yfir helstu samstarfsaðila í verkefninu. Upplýsingar um annan fjárhagslegan stuðning við verkefnið komi einnig fram.
6. Áætlun um námsframvindu ef umsækjandi er námsmaður.
7.Nöfn, símanúmer og netföng þeirra sem leita má til um meðmæli.
Gert er ráð fyrir því að styrkþegi skili sjóðnum greinargerð um stöðu verkefnisins innan árs frá afhendingu styrksins.
Hámarkslengd umsóknar er þrjár síður. Farið er með allar umsóknir sem trúnaðarmál. Stjórn áskilur sér rétt til að veita fleiri en einum umsækjanda styrk, hafna öllum og/eða úthluta styrkjum með öðrum hætti.
Umsóknum skal skila sem viðhengi á netfang Styrktarsjóða Háskóla Íslands, sjodir@hi.is. Áætlað er að úthlutun fari fram í maí 2019.
Sigríður Lárusdóttir (f. 5. maí 1918, d. 13. júní 2006) stofnaði sjóðinn sem ber nafn hennar 27. ágúst 2003 til minningar um þá sem hafa átt um sárt að binda vegna meðfæddra sjúkdóma í mjöðm en Sigríður átti við þann sjúkdóm að stríða frá fæðingu.
Frekari upplýsingar um styrkveitingu og úthlutun er að finna á á heimasíðu Háskóla Íslands, á sjóðavef Háskóla Íslands, eða hjá Helgu Brá Árnadóttur, verkefnisstjóra Styrktarsjóða Háskóla Íslands, helgab@hi.is, sími 525-5894.