Brynhildur G. Flóvenz, dósent við Lagadeild og formaður stjórnar, Þórhildur Líndal, forstöðumaður Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr, Margrét Scheving Thorsteinsson, Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, Halldór S. Guðmundsson, lektor við Félagsráðgjafardeild, Halldóra Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild, Bent Scheving Thorsteinsson, stofnandi sjóðsins.
Veittur hefur verið styrkur að fjárhæð 2,2 milljónir króna úr Styrktarsjóði Margaret og Bent Scheving Thorsteinssonar til rannsóknar á einelti gegn börnum á Íslandi. Um er að ræða heildstæða, þverfræðilega rannsókn en markmið sjóðsins er að standa fyrir rannsóknum á einelti og kanna allar lagalegar og siðferðilegar leiðir til að fyrirbyggja einelti og bæta fyrir afleiðingar þess. Styrkurinn var veittur við hátíðlega athöfn í Norræna húsinu.
Verkefnisstjóri eineltisrannsóknarinnar er Þórhildur Líndal, forstöðumaður Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr í fjölskyldumálefnum. Enn fremur taka Halldór S. Guðmundsson, lektor við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands og Halldóra Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild HÍ, þátt í undirbúningi og umsjón rannsóknarinnar. Umsjón og stjórnsýsla verkefnisins verður í höndum Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr í fjölskyldumálefnum í samvinnu við Félagsráðgjafardeild, Lagadeild og Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Ráðgefandi sérfræðingur við framkvæmd rannsóknarinnar verður dr. Brynja Bragadóttir.
Markmið rannsóknarinnar er að greina þekkingu á tíðni eineltis, viðbrögð við því og lagaúrræði þegar um einelti er að ræða. Skoðuð verður skilgreining á einelti í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum, innan sem utan skólakerfisins og í félagslegri þjónustu við börn. Þá verður rannsakað hvort viðbrögð við einelti séu samræmd af hálfu þeirra sem vinna með börnum. Rannsókninni er ætlað að efla sérfræðiþekkingu á einelti enn frekar og styrkja þannig félagsleg og lagaleg úrræði til að sporna við því.
Á undanförnum árum hefur einelti vakið aukna athygli, ekki síst það sem fram fer meðal skólabarna. Vandinn hefur verið viðurkenndur en þrátt fyrir það er einelti staðreynd og alvarlegt vandamál hér á landi. Rannsakendur telja brýnt að skoða einelti út frá mismunandi sjónarhornum, þ.e. frá sjónarhorni lögfræðinnar, félagsráðgjafar og menntavísinda, og leita frekari leiða til að samræma og samhæfa þá þekkingu sem nú þegar er til staðar. Hugmyndin er að niðurstöður geti gert löggjafanum, framkvæmdar- og þjónustuaðilum betur kleift að samræma þekkingu sína á einelti, sem aftur gæti leitt til bættrar löggjafar og markvissari stjórnsýslu og þjónustu við börn í íslensku samfélagi.
Rannsóknarverkefnið verður unnið af þremur meistaranemum frá Lagadeild, Félagsráðgjafardeild og Menntavísindasviði undir stjórn ofannefndra fræðimanna. Verkefnastjórn rannsóknarinnar mun auglýsa eftir meistaranemum til þess að taka þátt í rannsókninni en fyrirhugað er að þeir nemar nýti rannsóknina sem meistaraverkefni við Háskóla Íslands.
Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni var sett á laggirnar haustið 2009. Hún er vísindaleg rannsóknastofnun sem starfrækt er af Háskóla Íslands. Stofnunin heyrir undir Lagadeild og er vettvangur lögfræðirannsókna og þróunarstarfs í málefnum fjölskyldna og barna, í þverfaglegu samstarfi við önnur fræðasvið og rannsóknastofnanir sem fjalla um fjölskyldumálefni.
Styrktarsjóður Margaret og Bent Scheving Thorsteinssonar er þriðji sjóðurinn sem Bent Scheving Thorsteinsson hefur stofnað við Háskóla Íslands en sjóðurinn var stofnaður 25. september árið 2001. Hinir tveir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis og fósturföður Bents, sem styrkir rannsóknir á sviði barnalækninga, og Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar, föður Bents, sem styrkir rannsóknir á sviði lyfjafræði.