Háskóli Íslands

Styrkur úr Sjóði Páls Guðmundssonar frá Rjúpnafelli - Brot úr sögu fagurfræðinnar í íslenskum bókmenntun

Dr. Birna Bjarnadóttir hefur hlotið styrk úr Sjóði Páls Guðmundssonar frá Rjúpnafelli til að rannsaka brot úr sögu fagurfræðinnar í íslenskum bókmenntum nítjándu aldar. Um er að ræða samanburðarrannsókn á fagurfræði rómantíkur og er sjónum einkum beint að tveimur tímaritum, annars vegar Fjölni, riti þeirra Fjölnismanna, og hins vegar tímariti Jena-hópsins svokallaða, eða Athenäum. Markmið rannsóknarinnar er að draga fáeinar útlínur á sviði evrópskrar fagurfræði nítjándu aldar og skerpa drættina í framlagi íslenskra skálda og fagurfræðinga.

Birna er dósent í íslenskum bókmenntum við Manitoba-háskóla og veitir jafnframt íslenskudeild sama háskóla forstöðu. Hún hefur stundað rannsóknir á fagurfræði í íslenskum bókmenntum um nokkurt skeið og er höfundur bókarinnar Holdið hemur andann. Um fagurfræði í skáldskap Guðbergs Bergssonar (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2003).

Árið 1999 var undirritaður samstarfssamningur Háskóla Íslands og Manitoba-háskóla og er hann í fullu gildi. Um er að ræða margháttað samstarf, en þungamiðja þess felst í möguleikum stúdenta til að gerast skiptinemar og fastráðinna kennara til að stunda rannsóknir beggja vegna Atlantshafs. Annar hornsteinn samningsins er samstarfsráðstefna háskólanna tveggja, sem haldin er á tveggja ára fresti. Síðast en ekki síst má nefna sumarnámskeið á vegum íslenskudeildar Manitoba-háskóla, The Icelandic Field School, sem haldið var á Íslandi í fyrsta sinn á liðnu sumri. Helsti samstarfsaðili er Háskóli Íslands og stefnt er að enn frekara samstarfi í því efni.
Tilgangur Styrktarsjóðs Páls Guðmundssonar er að efla tengsl milli Háskóla Íslands og Manitoba-háskóla. Veittir eru styrkir til rannsókna, náms eða annarra verkefna sem falla að tilgangi sjóðsins.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands, allt frá stofnun skólans. Flestir starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is