Háskóli Íslands

Styrkur vegna rannsóknar á róttæklingum í hópi vesturfara

Vilhelm Vilhelmsson, meistaranemi í sagnfræði, hefur hlotið viðurkenningu úr Minningarsjóði dr. phil. Jóns Jóhannessonar. Styrkurinn nemur 200.000 krónum. Meistaraverkefni Vilhelms Vilhelmssonar (viv13@hi.is) ber titilinn „Allt skal frjálst, allt skal jafnt. Um hugmyndaheim og félagsskap róttæklinga meðal íslenskra vesturfara 1890-1911.“ Markmið rannsóknarinnar er að rekja merkilega sögu þeirra sem hafa orðið út undan í sagnarituninni vegna óhefðbundinna skoðana sinna og andófs gegn ríkjandi viðhorfum.

Verkefnið fjallar um íslenska vesturfara sem fluttu til Norður-Ameríku á róstusömum tímum í sögu Bandaríkjanna og Kanada. Áhersla er lögð á Íslendinga í Vesturheimi sem innflytjendur í Norður-Ameríku og er saga þeirra er sett í félagslegt, pólitískt og hugmyndafræðilegt samhengi, einkum út frá hugmyndaheimi og félagsskap róttæklinga meðal íslenskra innflytjenda í Vesturheimi. Aðlögun Vestur-Íslendinga að kanadísku samfélagi er skoðuð í ljósi nýrra kenninga í innflytjendasögu en róttæklingar voru bæði á skjön við ráðandi öfl í viðtökusamfélaginu og í samfélagi innflytjendahópsins. Aðlögunarferli þeirra var því í annað en almennt gerðist og er rannsóknin hugsuð sem liður í þeirri almennu endurskoðun á sögu Vestur-Íslendinga sem átt hefur sér stað síðastliðinn áratug. Einnig er rýnt í þann fjölbreytileika sem einkenndi ævi og störf Íslendinga í Vesturheimi. Leiðbeinandi er Ragnheiður Kristjánsdóttir, aðjunkt í sagnfræði.

Tilgangur Minningarsjóðs dr. phil. Jóns Jóhannessonar er að veita stúdentum eða kandídötum í íslensku og sagnfræði styrki til einstakra rannsóknarverkefna sem tengjast námi þeirra. Sjóðurinn var stofnaður árið 1983 til minningar um Jón Jóhannesson prófessor með gjöf ekkju hans, frú Guðrúnar Helgadóttur, og með minningargjöfum samstarfsmanna hans, nemenda, ættingja og vina.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is