Háskóli Íslands

Þátttaka ungs fólks með þroskahömlun í íslensku samfélagi

Kristín Björnsdóttir, Félagsvísindi

Til að tryggja fólki með þroskahömlun sömu réttindi og öðrum þjóðfélagsþegnum voru sett lög á Íslandi árið 1979. Fyrstu kynslóðirnar eftir að lögin voru sett eru nú komnar á fullorðinsár og því áhugavert að skoða þátttöku þeirra í samfélaginu. Íslenskar rannsóknir á þessu sviði hafa einkum beinst að þátttöku fólks með þroskahömlun í skólakerfi og á vinnumarkaði. Minni áhersla hefur verið lögð á aðra samfélagslega þátttöku.

Verkefnið felst í að því að skoða samspil menningar og samfélagslegrar þátttöku í lífi og reynslu ungs fólks með þroskahömlun, með áherslu á kyngervi og sjálfsskilning. Rannsóknin byggir á lífssögum ungs fólks með þroskahömlun á aldrinum 20-30 ára. Þátttakendur eru 25 talsins og eiga sameiginlegt að vera virkir þátttakendur á ýmsum sviðum samfélagsins, t.d. í trúarlífi, sjálfsákvörðunarhópum og íþróttum.

Rannsóknin er á sviði fötlunarfræða, sem er ný, þverfræðileg og hratt vaxandi fræðigrein. Fötlunarfræði hafna einhliða læknisfræðilegum sjónarhornum og leggja áherslu á að skilja þá félagslegu þætti sem hafa áhrif á líf og aðstæður fatlaðs fólks.

Niðurstöður rannsóknarinnar munu auka þekkingu og skilning á lífi ungs fólks með þroskahömlun, þörfum þeirra og óskum. Niðurstöður munu jafnframt gagnast í stefnumótun og þjónustu. Um er að ræða jaðarhóp sem lítið hefur verið rannsakaður hér á landi og rannsóknin mun auka skilning á samfélagslegum aðstæðum slíkra hópa í íslensku samfélagi. Rannsóknin er hluti af stærra verkefni, „Börn, ungmenni og fötlun“, sem unnið er við Rannsóknasetur í fötlunarfræðum við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Leiðbeinandi: Rannveig Traustadóttir, prófessor við félagsvísindadeild og forstöðumaður Rannsóknarseturs í fötlunarfræðum.

Samstarfsaðilar: Dan Goodley, prófessor við Manchester Metropolitan University, Hanna Björg Sigurjónsdóttir, lektor við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, og Ingólfur Á. Jóhannesson, prófessor við Háskólann á Akureyri.

Úthlutunarár: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is