Háskóli Íslands

Þorkell á Búðarárbakka: Fornleifafræðileg persónurannsókn á 17. aldar kotbónda úr uppsveitum Árnessýslu

Kristján Mímisson, Hugvísindi

Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 segir frá kotbónda nokkrum að nafni Þorkell sem á miðri 17. öld byggði bæinn Búðarárbakka í Hrunamannahreppi. Þar mun hann hafa búið í um tíu ár en Jarðabókin getur þess jafnframt að áður hafi hann búið í Tunguseli í Biskupstungum og í Búðarártungu í Hrunamannahreppi, sem er aðeins 250 metrum frá Búðarárbakka, hinu megin Búðarár. Samkvæmt lýsingum í Jarðabókinni var Þorkell gamall og rótlaus einyrki sem bjó á alls 27 stöðum um ævina. Engum öðrum sögum fer af lífshlaupi Þorkels kotbónda í ritheimildum.

Fornleifauppgröftur hefur nú staðið yfir á Búðarárbakka frá árinu 2005 sem miðar að því að rannsaka persónusögu Þorkels kotbónda í efnisheimildum. Við fornleifarannsóknirnar er kenningum um einstaklinginn í fornleifafræðilegum efnivið beitt til að skapa ævisögubrot kotbóndans. Litið er á efnismenninguna sem fornleifauppgröfturinn leiðir í ljós (þ.e. fornminjar og gripi) og staðsetningu þeirra í landslaginu, sem persónulegar heimildir um Þorkel, heimildir um daglegt líf ákveðins einstaklings sem eru mettaðar sjálfinu og fjölbreytilegum birtingarmyndum þess. Þær eru reyndar ekki nema „brotabrot andartakanna“ í ævi Þorkels kotbónda en segja persónusögu sem hvergi er annars staðar skráð.

Fornleifarannsóknin á Búðarárbakka er nýstárleg tilraun til að skyggnast inn í líf almúgamanns frá fyrri öldum með því að lesa í efnismenninguna sem hann skildi eftir sig.

Leiðbeinandi: Gavin Lucas, lektor í fornleifafræði við hugvísindadeild Háskóla Íslands.

Samstarfsaðilar: Fornleifafræðistofan (Eldstál ehf.), Fornleifasjóður, sveitafélagið Hrunamannahreppur og Landsnet hf.

Úthlutunarár: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is