Háskóli Íslands

Þrjár hlutu styrki til rannsókna í hjúkrunar- og ljósmóðurfræði

Þrír styrkir hafa verið veittir úr Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur til doktorsrannsókna í hjúkrunar- og ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands. Í rannsóknunum er m.a. fjallað um leiðir til að efla heimahjúkrun aldraðra, þróun meðferðar fyrir konur sem upplifa fæðingu sína neikvætt og þróun á gagnreyndum aðferðum sem geta bætt lífsgæði unglinga með ADHD og fjölskyldna þeirra.
 
Styrkhafar eru hjúkrunarfræðingarnir Inga Valgerður Kristinsdóttir, Ingibjörg Margrét Baldursdóttir og Valgerður Lísa Sigurðardóttir, sem einnig er ljósmóðir. Heildarupphæð styrkjanna nemur 900.000 krónum. 
 
Doktorsrannsókn Ingu Valgerðar Kristinsdóttur hefur það að markmiði að varpa ljósi á heilsufar, færni og aðstæður eldra fólks, sem býr enn heima hjá sér og nýtur formlegrar þjónustu og aðstoðar aðstandenda, með það fyrir augum að greina leiðir til að efla heimahjúkrun þeirra. Byggt er á gögnum sem aflað var í samevrópskri rannsókn sem nefnist IBenC. Tekið var slembiúrtak 420 skjólstæðinga heimahjúkrunar í Reykjavík og voru þeir metnir með InterRAI-HC mælitækinu, sem gefur yfirlit yfir heilsufar og þjónustuþörf, þrisvar yfir eins árs rannsóknartímabil. Skoðað verður hvort og þá hvernig heilsufar, færni og aðstæður þessa fólks hafa breyst á tíu ára tímabili. Einnig verður kannað hvort hægt sé að greina þætti sem spá fyrir um flutning þeirra á hjúkrunarheimili og hvort fyrirbyggjandi aðgerðir í heimahjúkrun geti frestað þeim flutningi. Að síðustu verða niðurstöðurnar notaðar til að greina hvaða þættir valda erfiðleikum og álagi hjá aðstandendum og hvernig heimahjúkrun geti þróað starfsaðferðir og komið enn frekar til móts við þá. Leiðbeinandi Ingu Valgerðar er Kristín Björnsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild. Í doktorsnefnd sitja þau Pálmi V. Jónsson prófessor, Ingibjörg Hjaltadóttir lektor og Thor Aspelund prófessor, öll við Háskóla Íslands.
 
Doktorsrannsókn Ingibjargar Margrétar Baldursdóttur hefur það að markmiði að kanna ávinning af styrkleikamiðuðum meðferðarsamræðum fyrir fjölskyldur 13-18 ára unglinga með ADHD-greiningu á Barna- og unglingageðdeild Landspítala (BUGL). Úr þeim hópi 13-18 ára unglinga, sem fengið hafa ADHD-greiningu og njóta eða bíða eftir þjónustu frá BUGL, verða valdir 70 unglingar af handahófi og foreldrum boðin þátttaka í rannsókninni. Þátttakendum er skipt handahófskennt í tvo jafnstóra hópa, tilraunahóp og samanburðarhóp. Íhlutun samanstendur af þremur vikulegum foreldrahóptímum með 4-8 foreldrum og tveimur foreldraviðtölum. Í foreldrahóptímum er farið almennt yfir orsök og einkenni ADHD ásamt gagnreyndum uppeldisleiðbeiningum fyrir umönnunaraðila unglinga með röskunina. Í meðferðarsamræðunum tveimur er farið yfir sértækar aðstæður hverrar fjölskyldu með styrkleikamiðuðum samræðum. Stutt er við jákvæð viðhorf og gagnlegar leiðir þar sem rödd allra í fjölskyldunni fær að heyrast. Foreldrar og unglingar í tilraunar- og samanburðarhópum svara spurningalistum fyrir og eftir inngrip og niðurstöðurnar gefa vísbendingar um hvort og þá hver ávinningurinn sé af inngripinu. Niðurstöðurnar eru mikilvægar fyrir áframhaldandi þróun á gagnreyndum aðferðum sem geta bætt lífsgæði unglinga með ADHD og fjölskyldna þeirra. Nú þegar hafa 25 fjölskyldur lokið þátttöku en stefnt er á að ljúka gagnasöfnun fyrir vorið 2020. Leiðbeinandi Ingibjargar er Erla Kolbrún Svavarsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild. Í doktorsnefnd sitja Rúnar Vilhjálmsson og Urður Njarðvík, prófessorar við Háskóla Íslands, ásamt Margréti Gísladóttur, sérfræðingi á fræðasviði geðhjúkrunar.
 
Doktorsrannsókn Valgerðar Lísu Sigurðardóttur miðar að því að hjálpa konum að vinna úr neikvæðri fæðingarupplifun. Vísbendingar eru um að 5-17% kvenna upplifi fæðinguna neikvætt og getur það haft slæmar afleiðingar á heilsu og líðan konunnar, barnsins og fjölskyldunnar. Í fyrsta hluta rannsóknarinnar kom fram að 5-6% kvenna upplifa fæðingu neikvætt hérlendis. Helstu forspárþættir eru neikvæð tilhugsun um fæðingu, inngrip, langdregin fæðing, að vera nemi, óánægja með stuðning ljósmóður og þunglyndiseinkenni. Í öðrum hluta kom fram að konur kalla eftir frumkvæði fagfólks að samtali um fæðingarreynslu þar sem farið er yfir fæðingarskrá og spurningum kvenna svarað. Í síðasta hluta rannsóknarverkefnisins var þróuð meðferð sem felur í sér að ljósmæður fara yfir fæðingarreynslu með konum sem gengið hafa í gegnum áhættumeðgöngu. Meðferðin samanstendur af skrifum kvenna um fæðingarreynsluna og viðtali við ljósmóður sem sinnti þeim í meðgönguvernd. Bæði konur og ljósmæður telja ákjósanlegt að bjóða upp á slíkt úrræði fyrir þennan hóp. Leiðbeinandi Valgerðar er Helga Gottfreðsdóttir, prófessor í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild, og umsjónarkennari er Herdís Sveinsdóttir, prófessor við sömu deild. Í doktorsnefnd sitja Berglind Guðmundsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, og Jenny Gamble, prófessor við Griffith University í Brisbane í Ástralíu.
 
Rannsóknasjóður Ingibjargar R. Magnúsdóttur eflir rannsóknir í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum og veitir styrki til rannsóknaverkefna sem samræmast markmiðum hans. Ingibjörg R. Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingur og stofnandi sjóðsins, er fyrrverandi námsbrautarstjóri í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Ingibjörg hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar hjúkrunarmenntunar á Íslandi og var ein þeirra sem stóð að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 1973.
 
Hægt er að styrkja sjóðinn með ýmsu móti, t.d. með gjöfum í tilefni árgangaafmæla eða útskriftar. Einnig er hægt að senda minningarkort og tækifæriskort frá sjóðnum. Fjárhæðir má leggja inn á eftirfarandi bankareikning hjá Íslandsbanka: 0513-26-004057. Kennitala Styrktarsjóða HÍ er 571292-3199. 
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Sjóðirnir eru mikil lyftistöng fyrir háskólann, sem hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga í gegnum tíðina en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélagi
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is