Háskóli Íslands

Þrjár styrktar til rannsókna á sviði ljósmóðurfræða

Þrír styrkir hafa verið veittir til rannsókna á sviði ljósmóðurfræða úr Minningarsjóði Bjargar Magnúsdóttur ljósmóður og Magnúsar Jónassonar bónda. Rannsóknirnar snerta reynslu erlendra kvenna af barneignarferli og -þjónustu á Íslandi, þróun gæðavísa og útkomuþátta fyrir ljósmóðurþjónustu sem byggjast á hugmyndafræði um heilsueflingu og innleiðingu á viðtölum ljósmæðra við foreldra um upplifun af fæðingu innan heilbrigðisstofnana um allt land. Heildarupphæð styrkja nemur tæpum 4 milljónum króna.
 
Embla Ýr Guðmundsdóttir vinnur að doktorsrannsókn sem ber heitið „Útkoma fæðinga kvenna af erlendum uppruna á Íslandi og reynsla þeirra af umönnun í fæðingu“. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á stöðu kvenna af erlendum uppruna á Íslandi í barneignarferlinu og kanna aðgengi þeirra og reynslu af umönnun í fæðingu. Umönnun kvenna í barneignarferlinu og skipulag meðgönguverndar eru mikilvægir þættir til að tryggja góða útkomu og jákvæða upplifun kvenna í barneignarferlinu. Ný rannsókn styrkþega gefur til kynna að erlendur uppruni kvenna tengist auknum líkum á inngripum í fæðingarferlið og slæmum útkomum líkt og spangarklippingu og áhaldafæðingu ásamt lægri líkum á framköllun fæðingar. Leitast verður við að koma auga á hugsanlegar hindranir í barneignarþjónustunni og bera saman væntingar kvenna á meðgöngu um umönnun ljósmóður í fæðingu við upplifun af þeirri umönnun sem þær fengu í fæðingunni. Rannsóknin er byggð á einstaklingsviðtölum við konur af erlendum uppruna á meðgöngu og eftir fæðingu. Niðurstöðurnar verður hægt að nýta við skipulag barneignarþjónustunnar til að mæta þörfum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi.
 
Embla Ýr er aðjunkt við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og starfar sem ljósmóðir á Fæðingarheimili Reykjavíkur sem hún stofnaði ásamt Emmu M. Swift árið 2021. Hún hóf doktorsnám í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands vorið 2019. 
 
Rannsókn Emmu Marie Swift ber heitið „Þróun á heilsueflandi útkomum til að meta ljósmóðurþjónustu á Íslandi“. Markmið rannsóknarinnar er að þróa gæðavísa og útkomuþætti fyrir ljósmæðraþjónustu sem byggjast á hugmyndafræði um heilsueflingu (e. salutogenesis). Gæðavísar af þessu tagi eru ekki til en þó nauðsynlegir til að meta barneignarþjónustu með tilliti til ljósmóðurmeðferða og heilsueflandi hugmyndafræði. Sem stendur er fylgst vel með ákveðnum gæðavísum sem gefa vísbendingu um gæði og öryggi heilbrigðisþjónustu sem veitt er hverju sinni. Dæmi um slíka gæðavísa er fjöldi inngripa í fæðingar, fjöldi innlagna á vökudeild, blæðing eftir fæðingu og spangaráverkar. Með því að bæta við heilsueflandi gæðavísum verður mögulegt að meta barneignarþjónustu með heildstæðari hætti og um leið skoða hvaða þættir styðja við heilbrigði kvenna og barna þeirra í víðari skilningi en áður. Niðurstöðurnar verða nýttar við skipulag og umbætur í barneignarþjónustu á Íslandi. 
 
Emma Marie er lektor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og formaður námsbrautar í ljósmóðurfræði. Emma lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands í janúar 2019. Sérsvið hennar í rannsóknum og ljósmóðurstörfum er að styðja við eðlilegt barneignarferli og samfellda þjónustu. Emma starfar einnig á Fæðingarheimili Reykjavíkur sem hún stofnaði ásamt Emblu Ýr Guðmundsdóttur árið 2021. 
 
Valgerður Lísa Sigurðardóttir vinnur að rannsókn sem ber heitið „Innleiðing á viðtölum ljósmæðra í heilsugæslu við foreldra um upplifun fæðingar“. Aðalmarkmið rannsóknarinnar er að meta innleiðingu á viðtölum ljósmæðra við foreldra um upplifun þeirra af fæðingu innan heilbrigðisstofnana um allt land. Í doktorsrannsókn Valgerðar kom fram að 5-6% kvenna hérlendis eru með neikvæða fæðingarreynslu og 37-38% fannst hún erfið. Þar kom jafnframt fram að konur kalla eftir frumkvæði fagfólks og betra aðgengi að samtali við fagaðila um fæðingarreynslu sína. Innleiðing viðtala við ljósmóður um upplifun fæðingar er þegar hafin innan heilsugæslustöðva á landsvísu en í henni felst þjónusta fyrir foreldra sem þess óska. Um er að ræða nýjung innan barneignarþjónustunnar og mikilvægt að meta árangurinn með vísindalegum hætti. Í fyrri áfanga rannsóknar verður gerð úttekt ári eftir innleiðingu á fjölda viðtala, dreifingu þeirra milli stofnana og einkennum hópsins sem þiggur viðtal. Þá verða tekin rýnihópaviðtöl við ljósmæður sem veitt hafa viðtölin. Upplifun foreldra á viðtölunum verður metin með spurningalistum. Niðurstöðurnar verða nýttar til að undirbyggja frekari þróun á eftirfylgd ljósmæðra við foreldra eftir fæðingu.
 
Valgerður Lísa Sigurðardóttir er sérfræðiljósmóðir á kvennadeild Landspítala og lektor við námsbraut í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar í rannsóknum og ljósmóðurstörfum tengjast geðheilsu og andlegri líðan kvenna í barneignarferlinu. Valgerður Lísa lauk doktorsnámi í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands árið 2020.
 
Þetta er í sjötta sinn sem styrkur er veittur úr Minningarsjóði Bjargar Magnúsdóttur ljósmóður og Magnúsar Jónassonar bónda en markmið hans er að styrkja ljósmæður og hjúkrunarfræðinga til framhaldsnáms. Sjóðurinn var stofnaður við Háskóla Íslands 22. desember 2008 samkvæmt fyrirmælum í erfðaskrá Soffíu Þuríðar Magnúsdóttur til minningar um foreldra hennar, Björgu Magnúsdóttur ljósmóður og Magnús Jónasson bónda sem bjuggu í Túngarði á Fellsströnd í Dölum. Björg var þar umdæmisljósmóðir árabilið 1910-1951.
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.
 
Myndir frá úthlutuninni hér í þessari frétt.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is