Háskóli Íslands

Tónlistar- og viðskiptafræðinemar styrktir til framhaldsnáms erlendis

Þrír nemendur í framhaldsnámi í tónlist og einn nemandi í framhaldsnámi í viðskiptafræði erlendis fengu á dögunum styrk úr Ingjaldssjóði við Háskóla Íslands. Þetta er í sjöunda sinn sem úthlutað er úr sjóðnum. Heildarupphæð styrkja er kr. 3.200.000.
 
Ingjaldssjóður var stofnaður 17. nóvember 2015 til minningar um dr. Ingjald Hannibalsson, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Ingjaldur starfaði lengst af við Háskóla Íslands og arfleiddi hann skólann að öllum eigum sínum. Stofnfé sjóðsins nam rúmlega sjötíu milljónum króna og frá stofnun hafa jafnframt borist gjafir í sjóðinn. Samtals hafa 22 framhaldsnemar notið stuðnings sjóðsins frá upphafi og heildarupphæð styrkja numið rúmum 17 milljónum króna.
 
Samkvæmt fyrirmælum sem sett voru fram í erfðaskrá Ingjalds skal sjóðurinn styrkja efnilega íslenska námsmenn við Háskóla Íslands til framhaldsnáms erlendis í rekstrarstjórnun og alþjóðlegum viðskiptum eða nemendur í tónlist. Stjórn sjóðsins skipa Karólína Eiríksdóttir, Þórður Sverrisson og Runólfur Smári Steinþórsson, sem er formaður sjóðsins.
 
Styrkhafar árið 2022:
 
Elías Ýmir Larsen útskrifaðist frá Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands með áherslu á markaðsfræði og alþjóðaviðskipti vorið 2020. Nú stundar hann nám í frumkvöðlafræði og nýsköpun við Háskólann í Padua á Ítalíu. Háskólinn er einn af elstu háskólum heims þ. á m. sá fyrsti til að útskrifa konu, árið 1678. Jafnframt hefur hann hlotið fjölda viðurkenninga fyrir námsframboð og þátttöku í rannsóknum. Einnig er háskólinn ofarlega á lista QS World University Rankings 2023 yfir hátt metna háskóla á heimsvísu. Námið sem Elías stundar miðar að því að dýpka þekkingu stúdenta á ýmsum sviðum fyrirtækja og stofnana út frá sýn hagfræðinnar, stjórnunar, lagalegra sjónarmiða og kunnáttu með vinnslu megindlegra gagna. Námið gerir nemendur hæfa til að vinna við rekstrarstjórnun, viðskiptaþróun og nýsköpun í fjölbreyttu samhengi, bæði innan nýrri og eldri fyrirtækja. Einnig fá nemendur í hendur öll þau verkfæri sem mikilvægt er að hafa við stofnun nýrra fyrirtækja á alþjóðavísu.
 
Flemming Viðar Valmundsson harmonikuleikari lauk bakkalárgráðu með hæstu einkunn frá Konunglega tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn 2020 og stundar nú meistaranám við sama skóla undir handleiðslu Andreas Borregaard og Geirs Draugsvoll, sem eru á meðal virtustu harmonikuleikara heims. Hann hóf tónlistarnámið átta ára gamall hjá Guðmundi Samúelssyni í Tónlistarskólanum í Grafarvogi og lauk framhaldsprófi þaðan 10 árum síðar. Þar á eftir staldraði hann við í Tónlistarskóla FÍH þar sem hann lærði áfram á harmoniku með Eyþóri Gunnarssyni áður en haldið var til Danmerkur í háskólanám. Flemming hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, DKDM Sinfonietta og frumflutt nýjan harmonikukonsert eftir Tryggva Þór Pétursson með sinfóníettu LHÍ. Hann er meðlimur harmonikutríósins TriOssia, sem lék til úrslita hjá Young Classical Artists Trust árið 2022, og kom fram með því í Wigmore Hall í London. Auk þess er hann einn af stofnmeðlimum nútímalistarteymisins PAKK Collective. Flemming hefur komið fram í fjöldamörgum leiksýningum á Íslandi auk þess að hafa víða leikið með ýmsum hljómsveitum á fleiri hljóðfæri, þar á meðal sem bassaleikari og söngvari harðkjarnadúettsins Phlegm á Iceland Airwaves eftir að hafa hafnað í öðru sæti  í Músíktilraunum.
 
Guðbjartur Hákonarson hóf meistaranám í fiðluleik við Konunglega tónlistarkonservatoríið í Kaupmannahöfn haustið 2021. Áður hafði Guðbjartur lokið bakkalárnámi frá Indiana University, Jacobs School of Music þar sem hann lærði hjá Sigurbirni Bernharðssyni og Mauricio Fuks. Þar lagði hann einnig stund á barrokkfiðluleik undir handleiðslu Stanleys Ritchie. Guðbjartur hefur leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, Jacobs School of Music Ballet Ensemble og Jacobs School of Music Baroque Orchestra og komið fram sem konsertmeistari hljómsveita á borð við Orquestra de Cambra de Mallorca og Aurora Festival Orchestra í Stokkhólmi. Hann hefur dvalið sem staðarlistamaður á kammertónlistarhátíðinni í Banff í Kanada auk þess að hafa komið fram sem kammermúsíkant á tónlistarhátíðum víða í Bandaríkjunum og Evrópu, svo sem á Heifetz Institute og Aspen Music Festival. Um þessar mundir er Guðbjartur samningsbundinn víóludeild Konunglegu óperuhljómsveitarinnar í Kaupmannahöfn og mun hann taka þátt í kammermúsíkkeppni danska ríkisútvarpsins með strengjakvartett sínum Resonans nú í janúar.
 
Harpa Ósk Björnsdóttir sópransöngkona stundar nám við óperudeild Bayerisches Theaterakademie August Everding við Prinzregenten-óperuhúsið í München þar sem hún lærir undir handleiðslu söngkonunnar Sabine Lahm. Fyrr á árinu lauk hún bakkalárnámi í klassískum söng frá Felix Mendelssohn tónlistarháskólanum í Leipzig. Hún hóf söngnám 15 ára gömul í tónlistarstarfi Langholtskirkju og fór þaðan í Söngskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. Harpa þreytti frumraun sína með Íslensku óperunni í hlutverki Barbarinu í Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart, var einn sigurvegara Ungra einleikara, keppni Sinfóníuhljómsveitar Íslands og LHÍ, og sigraði í háskólaflokki keppninnar Vox Domini þar sem hún hlaut titilinn „Rödd ársins 2019“. Harpa hefur hlotið ýmsa styrki síðustu misseri, þ.á m. námsstyrk Landsbankans, tónleikastyrk frá Ýli og styrki úr minningarsjóðum Vilhjálms Vilhjálmssonar, Ruthar Hermanns og Jóns Stefánssonar. Næstu verkefni Hörpu utan námsins eru hlutverk í óperunum Toscu í Oper Leipzig, Hans og Grétu við Oper Halle, Achill unter den Mädchen við Prinzregententheater München, Töfraflautunni í gestauppsetningu Oper Leipzig við Theater Regensburg, með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborgarsal Hörpu og tónleikar í tónleikaröðinni „Ár íslenska einsöngslagsins“ í febrúar 2023. Harpa hefur einnig lokið BS-prófi í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands.
 
Um Ingjaldssjóð
 
Ingjaldssjóður, minningarsjóður Ingjalds Hannibalssonar prófessors, er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn Háskóla Íslands. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir sjóðanna starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til ávinnings fyrir starf Háskóla Íslands með styrkjum til stúdenta og starfsfólks.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is