Háskóli Íslands

Tuttugu og fimm styrkir til doktorsvefna við HÍ

Rannsóknir á áhrifum efnahagshrunsins á heilsu landsmanna, hnattrænu álagi íslenskra neytenda á umhverfið, fæðingarótta og líkamlegri heilsu og svefni unglinga eru meðal doktorsverkefna sem í dag hlutu styrki úr rannsóknasjóðum við Háskóla Íslands. Styrkirnir eru 25 og renna til doktorsnema og vísindamanna við öll fimm fræðasvið háskólans.
 
Styrkirnir eru m.a. veittir til rannsóknaverkefna í læknisfræði, safnafræði, lyfjafræði, mannfræði, heimspeki, bókmenntafræði, efnafræði, hagfræði, lýðheilsuvísindum, íslenskum miðaldabókmenntum, líffræði, íþrótta- og heilsufræði, umhverfis- og byggingarverkfræði, jöklafræði, rafmagns- og tölvuverkfræði og eðlisfræði.  
 
Fimm doktorsnemar hljóta styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands að þessu sinni en 20 úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands; þrettán doktorsnemar og sjö vísindamenn sem nýta munu styrkina til að ráða til sín doktorsnema. Sex af doktorsnemunum sem fá styrk að þessu sinni koma erlendis frá.
 
Háskóli Íslands hefur notið góðs af framlögum úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands allt frá stofnun sjóðsins á sjöunda áratug síðustu aldar. Í  ár er úthlutað úr sjóðnum samkvæmt gildandi reglum í níunda sinn. Sjóðurinn er í umsjá Landsbankans. Úthlutað er úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands til doktorsnema og leiðbeinenda þeirra í áttunda sinn en sjóðurinn hefur lagt sérstaka áherslu á að efla doktorsnám. 
 
Óhætt er að segja að vegur doktorsnáms við Háskóla Íslands hafi farið ört vaxandi á síðustu árum en það er í samræmi við stefnumörkun skólans. Í henni er sérstaklega kveðið á um eflingu doktorsnáms með það fyrir augum að gera skólann að enn öflugri rannsóknaháskóla sem er frumskilyrði þess að Íslendingar séu samkeppnisfærir á vettvangi vísinda, nýsköpunar og atvinnuþróunar í alþjóðlegu þekkingarsamfélagi.
 
 
Um Háskólasjóð H/f Eimskipafélags Íslands
Háskólasjóður H/f Eimskipafélags Íslands var stofnaður árið 1964 og var stofnfé sjóðsins hlutabréfaeign Vestur-Íslendinga í Eimskipafélaginu. Með gjöf sinni vildu gefendur stuðla að velgengni Háskóla Íslands, styrkja efnilega stúdenta til náms við skólann og um leið minnast þátttöku Vestur-Íslendinga í stofnun Eimskipafélagsins. Gjöfin lýsir einstakri framsýni gefenda sem gerðu sér grein fyrir mikilvægi menntunar til vaxtar og örvunar atvinnulífs þjóðarinnar.
Fyrsta úthlutun úr sjóðnum í núverandi mynd fór fram árið 2006 og hafa rúmlega hundrað doktorsnemar á sviðum verkfræði- og raunvísinda, hugvísinda, heilbrigðisvísinda, menntavísinda og félagsvísinda stundað rannsóknir og nám við Háskóla Íslands með stuðningi sjóðsins.  
 
Stjórn Háskólasjóðs H/f Eimskipafélags Íslands skipa Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs Landsbankans, Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskipafélags Íslands, og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.
 
Um Rannsóknasjóð Háskóla Íslands
Rannsóknasjóður Háskóla Íslands var stofnaður árið 1982 í þeim tilgangi að efla rannsóknastarfsemi við háskólann. Úr sjóðnum er úthlutað styrkjum til starfsmanna skólans, nýdoktora og doktorsnema auk ferðastyrkja til stúdenta í rannsóknanámi. Alls hafa um 200 doktorsnemar fengið úthlutað úr sjóðnum frá upphafi.
 
Vísindanefnd háskólaráðs fer með stjórn sjóðsins og er formaður nefndarinnar jafnframt formaður stjórnar sjóðsins. Vísindanefnd skipa þau Ármann Jakobsson, prófessor á Hugvísindasviði sem er jafnframt formaður, Irma Erlingsdóttir, dósent á Hugvísindasviði, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor við Félagsvísindasvið (varamaður á haustmisseri 2014 var Tinna Laufey Ásgeirsdóttir dósent), Oddur Ingólfsson, prófessor á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, Sigurbjörn Árni Arngrímsson, prófessor við Menntavísindasvið (varamaður á haustmisseri 2014 var Anna Kristín Sigurðardóttir dósent), Árni Kristjánsson, dósent við Heilbrigðisvísindasvið (varamaður á haustmisseri 2014 var Fanney Þórsdóttir dósent) og Sunna Símonardóttir sem er fulltrúi doktorsnema.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is