Háskóli Íslands

Tveir doktorsnemar hljóta viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar lyfsala

Þann 31. janúar árið 2007 voru veittar tvær viðurkenningar úr Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar lyfsala. Úthlutunin fór fram við hátíðlega athöfn í Skólabæ.

Ögmundur Viðar Rúnarsson og Elsa Steinunn Halldórsdóttir doktorsnemar í lyfjafræði við Háskóla Íslands, hlutu viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar lyfsala árið 2007. Þetta var í þriðja sinn sem sjóðurinn veitti framhaldsnemum í lyfjafræði við Háskóla Íslands viðurkenningu fyrir framúrskarandi rannsóknir.

Bent Scheving Thorsteinsson stofnaði sjóðinn í maí árið 2001 til minningar um föður sinn Þorstein Scheving Thorsteinsson lyfsala í Reykjavíkurapóteki og eiginkonu hans Bergþóru Patursson. Sjóðnum er ætlað að styrkja vísindaleg afrek á sviði lyfjafræði, rannsóknir og framhaldsnám í faginu. Hefur sjóðurinn stutt við kraftmikla uppbyggingu doktorsnáms í lyfjafræði við Háskólann og gert nemendum kleift að kynna rannsóknir sínar erlendis og taka þátt í erlendu samstarfi í tengslum við doktorsnámið.

Rannsóknarverkefni Ögmundar Viðars fjallaði um efnasmíð og rannsóknir á katjónískum kítósykruafleiðum með bakteríuhamlandi eiginleika. Kítósykrur og afleiður þeirra hafa sýnt margs konar áhugaverða lyfjafræðilega eiginleika svo sem bakteríudrepandi eiginleika, genaferjunareiginleika og sáragræðandi eiginleika. Ögmundur Viðar Rúnarsson lauk BS-prófi í matvælafræði frá Háskóla Íslands árið 2002 og MS-prófi í lyfjavísindum frá lyfjafræðideild árið 2004. Hann hóf doktorsnám árið 2005 undir leiðsögn Más Mássonar prófessors.

Rannsóknarverkefni Elsu Steinunnar gekk út á rannsóknir á byggingum alkaóíða úr íslenskum jafnategundum og verkun þeirra á ensímið acetýlkólínesterasa, en hindrun á virkni þess gefur vísbendingu um verkun gegn heilahrörnunarsjúkdómum á borð við Alzheimerssjúkdóminn. Elsa Steinunn Halldórsdóttir lauk kandídatsprófi frá Lyfjafræðideild Háskóla Íslands 2003 og hóf doktorsnám á sviði lyfja- og efnafræði náttúruefna við Lyfjafræðideild árið 2005 undir leiðsögn Elínar Soffíu Ólafsdóttur prófessors.

Verðlaunahafarnir hafa báðir birt vísindagreinar um rannsóknarverkefni sín og kynnt þau með erindum og veggspjöldum á vísindaráðstefnum hérlendis og erlendis.

Ítarefni vegna styrkúthlutunar

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is