Háskóli Íslands

Tvístrun kviku í basískum sprengigosum og bráðnun íss

Björn Oddsson, Raunvísindi

Við flest eldgos í vatni, sjó og jöklum tvístrast bergkvikan í smágerða gjósku og geysihröð varmaskipti verða samhliða snöggkólnun kvikunnar. Í verkefninu verður rannsakað hvernig tvístrun kviku í sprengigosum í jökli hefur áhrif á ísbráðnun og hvernig hagnýta skal þá einstæðu möguleika sem varmamælingar á bráðnun jökulíss geta gefið um orkustrauma í eldgosum. Gerðar verða tilraunir í tilraunastofu, mælingar í felti og notuð verða fræðileg líkön. Markmiðið er að hagnýta þá möguleika sem varmamælingar með bráðnun íss gefa um orkustrauma í eldgosum.

Notaðar verða niðurstöður tilrauna á uppbræddu bergi úr Grímsvatnagosinu 2004 og tvístrun þess í þeim mismunandi ferlum sem verða þegar vatn og kvika blandast saman. Þessar tilraunir fara fram við Háskólann í Wurzburg. Kanna á mikilvægi einstakra tvístrunarferla með samanburði á gjósku úr gosinu og gjósku sem mynduð er í tilraunastofu. Mælingar á bráðnun íss við jarðhitauppsprettur í Grímsvötnum verða gerðar til samanburðar.

Verkefnið er framhald stærra verkefnis sem styrkt er af rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs um orkuflæði, tvístrun kviku og útbreiðslu gjósku í Grímsvatnagosinu 2004. Gögn um kornastærðardreifingu gjósku, varmarýmd basísks glers og hraða varmastraums í raunverulegu gosi úr Grímsvatnaverkefninu munu nýtast beint í þessari rannsókn.

Leiðbeinandi: Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við raunvísindadeild Háskóla Íslands.

Samstarfsaðilar: Bernd Zimanowski, prófessor við Institut für Geologie, Háskólanum í Würzburg, og Þorvaldur Þórðarson, Institute of Earth Science, Háskólanum í Edinborg.

Úthlutunarár: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is