Háskóli Íslands

Umgjörð og markmið frístundaheimila í Reykjavík fyrir 6-9 ára börn

Kolbrún Þorbjörg Pálsdóttir, Félagsvísindi

Verkefnið felst í heildstæðri rannsókn á umgjörð og eðli frístundaheimila í Reykjavík. Frístundaheimili eru yngsta tegund uppeldisstofnana á Íslandi og veita dagvistun fyrir börn frá 1.-4. bekk og eru opin alla virka daga í skólaleyfum. Þar fer fram mikið uppeldisstarf en frístundaheimilin eru þó nánast ósýnileg í uppeldiskerfinu. Starfsemin á rætur að rekja til 1971 en hún hefur ekkert verið rannsökuð hér á landi og brýnt að afla þekkingar á eðli hennar, umfangi, mótun og gildi. Miklar kröfur eru um tilvist frístundaheimilanna og um er að ræða mikilvæga grunnþjónustu. 

Auk þess að tryggja öruggan samastað barna að skóla loknum og þar til vinnudegi foreldra lýkur, benda erlendar rannsóknir til þess að dvöl í frístundaheimili geti styrkt félagslegan þroska barna og verið mikilvægur vettvangur fyrir óformlegt nám og skapandi starf. Frístundaheimila er ekki getið í íslenskum lagaramma og hlutverk þeirra og staða því allt önnur en annarra uppeldisstofnana.

Rannsóknin er þríþætt. 1) Að skoða þróun þjónustunnar sem stofnunar, varpa ljósi á ráðandi þætti og tengja við breytingar í starfi grunnskóla á 20. öld. Athugað verður hvaða áhrif veik kerfisleg staða stofnunarinnar hefur haft. 2) Að rannsaka ólík viðhorf þeirra sem skipuleggja heildstæðan vinnudag barnanna, þ.e. bæði starfsmenn skóla og frístundaheimilis. Hér beinist athyglin að markmiðum, samfellu og samstarfi skóla og frístundaheimilis. Tekin verða viðtöl og lagðir fram spurningalistar. Samstarfið verður einnig skoðað frá sjónarhóli barnsins. 3) Að rannsaka viðhorf foreldra til starfsins, bæði með spurningalista og rýnihópum, og kanna að hve miklu leyti þau viðhorf spegli viðhorf starfsfólks og rekstraraðila til markmiða og innihalds starfsins, sem og viðhorf barnsins sjálfs.

Leiðbeinandi: Jón Torfi Jónasson, prófessor í uppeldis- og menntunarfræði við félagsvísindadeild og forstöðumaður Rannsóknarstofu um þróun menntunar.

Úthlutunarár: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is