Föstudaginn 20. júní verður í fyrsta sinn úthlutað úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands. Sjóðurinn styrkir nemendur sem hafa náð framúrskarandi árangri á stúdentsprófi, en frá og með árinu 2009 munu afburðanemendur í grunnnámi einnig fá styrki úr sjóðnum. Þetta árið hljóta 25 einstaklingar sem innritast í Háskóla Íslands styrk.
Styrkurinn nemur 300 þúsund krónum auk þess sem skráningargjöld að upphæð 45 þúsund krónur eru felld niður. Styrkveitingu fylgir einnig vilyrði um árlegan styrk út námstímann í grunnnámi sé námsárangur enn framúrskarandi.
Ríflega sextíu umsóknir bárust og átti stjórn sjóðsins úr vöndu að ráða en hana skipa Þórdís Kristmundsdóttir formaður, Sigurður J. Grétarsson og Björg Björnsdóttir.
Við val á styrkþegum var litið til afburðaárangurs á stúdentsprófi en einnig voru lögð til grundvallar sjónarmið um virkni stúdents í félagsstörfum í framhaldsskóla, auk árangurs á öðrum sviðum, svo sem í listum eða íþróttum.
Þeir 25 afburðastúdentar sem valdir hafa verið úr hópi glæsilegra fulltrúa ungra námsmanna koma úr 14 framhaldsskólum og sækjast eftir inngöngu í 15 ólíkar námsleiðir og kynjahlutfallið er 11 karlar og 14 konur.