Háskóli Íslands

Velunnari Háskóla Íslands í heimsókn

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, tók í dag á móti einstökum velunnurum Háskóla Íslands, þeim hjónum Margaret og Bent Scheving Thorsteinsson. Bent Scheving Thorsteinsson hefur verið velgjörðarmaður Háskóla Íslands frá síðustu aldamótum og samtals hefur hann fært Háskóla Íslands 60 milljónir króna til stuðnings vísindum og rannsóknum. Féð hefur runnið til stofnunar þriggja sjóða, sem heyra undir Styrktarsjóði Háskólans. Sjóðirnir eru:

Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis (2000). Markmið hans er að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek, rannsóknir, ritgerðir og skylda starfsemi á sviði barnalækninga. Úthlutað hefur verið fjórum sinnum úr sjóðnum, síðast árið 2007.

Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Sch. Thorsteinssonar (2001). Markmið sjóðsins er að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek og styrkja rannsóknir og framhaldsnám í lyfjafræði. Úthlutað hefur verið fjórum sinnum úr sjóðnum og eru styrkhafar tíu talsins.

Styrktarsjóður Margaret og Bent Scheving Thorsteinssonar (2001). Markmið sjóðsins er að standa fyrir rannsóknum á einelti og kanna allar lagalegar og siðferðilegar leiðir til að fyrirbyggja einelti og bæta fyrir afleiðingar þess. Þrír hafa hlotið styrki úr sjóðnum, sem veittir voru árið 2003. Fjárhæðir sjóðanna hafa verið nýttar í þágu rannsókna við Háskóla Íslands og hafa verið veittir samtals sautján styrkir til vísindarannsókna úr sjóðunum. Það er rannsóknarstarfi Háskóla Íslands mikil lyftistöng að eiga jafn góðan velunnara og Bent Scheving Thorsteinsson er og vill Háskóli Íslands koma þökkum til Bents og eiginkonu hans fyrir einstakan stuðning í gegnum tíðina.

 

Ljósmynd: Fremri röð: Margaret og Bent Scheving Thorsteinsson. Aftari röð: Jónína Einarsdóttir, deildarforseti Félags- og mannvísindadeildar, Ásgeir Haraldsson, prófessor í Læknadeild, Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ, Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor í Lyfjafræðideild, Guðný Björk Eydal, deildarforseti Félagsfræðideildar, Eiríkur Tómasson, prófessor í Lagadeild, Sigurlína Davíðsdóttir,dósent í uppeldis- og menntunarfæði og Helga Brá Árnadóttir, verkefnastjóri styrktarsjóða og hollvina HÍ.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is