Háskóli Íslands

Verðlaunuð fyrir rannsóknir tengdar barnalækningum

Þrír barnalæknar hafa hlotið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Óskars Þórðarsonar læknis við Háskóla Íslands fyrir árangur í rannsóknum og þróunarstarfi tengdu heilsu barna og barnasjúkdómum. Verðlaunahafarnir eru þau Berglind Jónsdóttir, Snorri Freyr Dónaldsson og Guðmundur Vignir Sigurðsson og hlýtur hvert þeirra kr. 500.000. 
 
Markmið sjóðsins er að verðlauna vísindaleg afrek, rannsóknir, ritgerðir og skylda starfsemi á sviði barnalækninga.
 
Dr. Berglind Jónsdóttir, barnalæknir og sérfræðingur í innkirtlasjúkdómum barna, hefur rannsakað skjaldkirtilssjálfsónæmi hjá börnum með og án sykursýki af gerð 1. Mótefni gegn skjaldkirtli og betafrumum í brisinu eru mælanleg áður en sjúkdómar eins og van- eða ofstarfsemi í skjaldkirtli og sykursýki 1 koma fram. Í doktorsverkefni sínu kannaði Berglind algengi skjaldkirtilssjálfsónæmis og skjaldkirtilssjúkdóms hjá börnum með nýgreinda sykursýki 1, tengsl við betafrumumótefni, vefjaflokka, kyn og aldur við greiningu sykursýki. Öll börn greind með sykursýki 1 í Svíþjóð á fjögurra ára tímabili tóku þátt í rannsókninni sem leiddi í ljós tengsl milli ákveðinna betafrumumótefna og áhættu á skjaldkirtilssjúkdómi. Stúlkur eru almennt í meiri áhættu en drengir á að greinast með skjaldkirtilssjúkdóm en drengir með sykursýki greinast frekar með skjaldkirtilssjúkdóma en drengir sem glíma ekki við með sykursýki. Niðurstöður rannsóknarinnar nýtast í bættri skimun hjá börnum með sykursýki 1 fyrir skjaldkirtilssjúkdómi en mikilvægt er að greina hann snemma.
 
Berglind stundar nú rannsóknir á skjaldkirtilssjálfónæmi og sjúkdómi í skjaldkirtli hjá börnum í tengslum við m.a. umhverfisþætti í alþjóðlegu rannsókninni „The TEDDY study“ (The Environmental Determinants of Diabetes in The Young).
 
Berglind lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskólanum í Kaupmannahöfn árið 2006,  sérnámi í almennum barnalækningum frá Skånes Universitetssjukhus 2014 með undirsérgrein í innkirtlasjúkdómum barna 2017 . Berglind varði doktorsritgerð sýna við Háskólann í Lundi árið 2017 en hún starfar nú sem sérfræðilæknir á Barnaspítala Hringsins.
 
Dr. Guðmundur Vignir Sigurðsson barnalæknir hefur rannsakað beinþéttni og líkamssamsetningu ungs fólks, á aldrinum 18-27 ára sem hefur glímt við bólgusjúkdóma í meltingarvegi frá barnsaldri. Bólgusjúkdómar í meltingarvegi eru aðallega af tveimur gerðum: Crohn’s sjúkdómur og sáraristilbólgur (e. ulcerative colitis). Báðir sjúkdómarnir fela í sér mögulega neikvæð áhrif á beina- og vöðvauppbyggingu, meðal annars vegna langvinnrar bólgu, meðferðar með barksterum og minnkaðrar þátttöku í íþróttum. Í doktorsverkefni sínu við Gautaborgarháskóla rannsakaði Vignir beinþéttni og líkamssamsetningu, þ.e.a.s. vöðvamassa og fitumassa, með hefðbundnum DXA mælingum  hjá 74 einstaklingum með bólgusjúkdóma. Beinarkitektúr var skoðaður með tölvusneiðmyndum af beinum. Viðmiðunarhópurinn var rúmlega 1000 manns á svipuðum aldri í Svíþjóð. 
 
Helstu niðurstöður voru þær að ungt fólk, sér í lagi karlmenn, sem greindust með bólgusjúkdóma í meltingarvegi á barnsaldri, voru með mun lægri beinþéttni en jafnaldrar á fullorðinsaldri. Þá reyndist aðeins um helmingur vera með eðlilega samsetningu vöðva- og fitumassa borið saman við 72% viðmiðunarhópsins. Um 10% sjúklinganna reyndust samtímis vera með lítinn vöðvamassa og mikinn fitumassa en 2% hjá viðmiðunarhópnum. Líkamleg þjálfun virtist hafa jákvæð tengsl við bæði beinþéttni og vöðvamassa þrátt fyrir neikvæð áhrif sjúkdómsins. 
 
Vignir hefur starfað sem barnalæknir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) frá árinu 2021. Hann lauk sérnámi frá Sahlgrenska-sjúkrahúsinu í Gautaborg í almennum barnalækningum 2019 og starfaði áfram í tvö ár á göngudeild meltingarsjúkdóma barna ásamt því að klára doktorsnám við Gautaborgarháskóla árið 2021. 
 
Dr. Snorri Freyr Dónaldsson hefur verið að þróa og rannsaka nýtt tæki til öndunaraðstoðar strax eftir fæðingu, með sérstaka áherslu á minnstu fyrirburana. Hann leiddi fjölþjóðlega rannsókn tengda verkefninu og voru niðurstöður hennar birtar í JAMA Pediatrics. Rannsóknin leiddi í ljós að notkun nýja tækisins dró úr nauðsyn á barkaþræðingum og öndunarvélameðferðum hjá nýfæddum fyrirburum. Samhliða því hefur Snorri rannsakað fjölda CPAP tækja  sem notuð eru á nýburadeildum.
 
Núverandi rannsóknir tengjast öndunaraðstoð fyrir nýbura í þróunarlöndum og þegar hafa verið birtar tvær greinar um samanburð á tækjum sem notuð eru þar. Í undirbúningi er rannsókn í Dar el Salaam í Tansaníu sem gengur út á að skipuleggja öndunaraðstoð við nýfædd börn fyrstu viku ævinnar með það að markmið að minnka ungbarnadauða.
 
Snorri lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 2003. Hann fluttist til Stokkhólms 2009 og lauk sérnámi í nýburalækningum 2014.  Snorri varði doktorsritgerð sína við Karolinska Institutet 2021.
 
Um Verðlaunasjóð Óskars Þórðarsonar
 
Bent Scheving Thorsteinsson stofnaði Verðlaunasjóð Óskars Þórðarsonar læknis árið 2000 með veglegri peningagjöf, til minningar um Óskar sem var fóstri hans. Í desember 2007 bætti Bent um betur og lagði til viðbótarframlag við höfuðstól sjóðsins. Eigið fé sjóðsins er um 20 milljónir króna en samtals hafa Bent og Margaret eiginkona hans gefið Háskóla Íslands 60 milljónir króna með stofnun þriggja sjóða sem heyra undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands. Hinir sjóðirnir tveir eru Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala, sem hefur það að markmiði að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek og styrkja rannsóknir og framhaldsnám í lyfjafræði, og Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar, sem ætlað er að styðja rannsóknir á einelti.
 
Óskar Þórðarson barnalæknir brautskráðist frá Læknadeild Háskóla Íslands árið 1927, lærði fæðingarhjálp í Danmörku síðar sama ár og stundaði sérnám í barnalækningum í Austurríki og Þýskalandi á þriðja þriðja áratug síðustu aldar. Hann stofnaði læknastofu í Reykjavík árið 1930 og rak hana til dauðadags árið 1958. Samhliða var Óskar skólalæknir Austurbæjarskóla og Laugarnesskóla, læknir barnaheimilisins Sumargjafar og eftirlitslæknir við barnaheimili Reykjavíkur. Óskar kvæntist Guðrúnu Sveinsdóttur frá Hrauni á Skaga, móður Bents, árið 1928.
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir stúdenta eða starfsfólk Háskóla Íslands og samfélagið allt. 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is