Háskóli Íslands

Viðurkenning fyrir frumkvöðlastarf við bindingu kolefnis í bergi

Sigurður Reynir Gíslason, jarðefnafræðingur og vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans, hefur hlotið viðurkenningu úr Nýsköpunarsjóði dr. Þorsteins Inga Sigfússonar við Háskóla Íslands. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, afhenti viðurkenninguna við hátíðlega athöfn á afmælisdegi Þorsteins Inga 4. júní síðastliðinn.
 
Þetta er í fyrsta skipti sem viðurkenning er veitt úr sjóðnum en tilgangur hans er að stuðla að auknum áhuga á nýsköpun og styrkja efnilega frumkvöðla, nemendur eða vísindamenn, sem með einhverjum hætti sinna verkefnum eða rannsóknum er lúta að nýsköpun.
 
Sigurður Reynir hlýtur viðurkenninguna fyrir frumkvöðlastarf við þróun aðferða við að binda kolefni í jarðlögum en með því vill sjóðurinn undirstrika það vísindastarf sem þessi mikilvæga nýja aðferð og starfsemi fyrirtækisins Carbfix hvílir á. 
 
Carbfix-verkefnið hófst árið 2007 með það að markmiði að þróa leiðir til þess að fanga koltvíoxíð úr útblæstri orkuvera eða beint úr andrúmslofti og binda það í bergi, svokölluðu basalti, en Ísland er að mestu úr basalti. Rannsóknir og tilraunir hafa sýnt að þær aðferðir sem notaðar eru í verkefninu virka og eru nú bæði koltvíoxíð og brennisteinsvetni fönguð og steingerð við Hellisheiðarvirkjun. Basaltlög eru um 5% af jarðlögum meginlanda en miklu meira er að finna á botni heimshafanna. Áætlað er að þessi jarðlög geti rúmað tífalt meira steingert kolefni en nemur losun kolefnis við bruna alls jarðefnaeldsneytis á jörðinni. Þessi vísindalega grundaða og nýstárlega aðferð getur því skipt sköpum í baráttu mannkyns við að draga úr magni kolefnis í andrúmsloftinu og orðið mikilvægur þáttur við að draga úr hnattrænni hlýnun. 
 
Stjórn Nýsköpunarsjóðs dr. Þorsteins Inga telur þessar rannsóknir og hagnýtingu þeirra vera með merkustu framlögum Íslendinga á sviði vísinda og fagnar því að geta veitt dr. Sigurði Reyni Gíslasyni verðskuldaða viðurkenningu fyrir hans þátt í þeim.
 
Sigurður Reynir lauk doktorsprófi í jarðefnafræði frá Johns Hopkins háskólanum í Bandaríkjunum árið 1985 og starfar sem vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans. Rannsóknahópur hans hefur rannsakað efnaskipti vatns, bergs, lofttegunda og lífvera í náttúrunni og á tilraunastofum með sérstaka áherslu á hringrás kolefnis á jörðinni og bindingu kolefnis í bergi. Sigurður er einn af stofnendum Carbfix-verkefnisins og var formaður vísindaráðs þess 2007-2017. Árið 2018 hlaut hann „The C.C Patterson Award“ frá Jarðefnafræðisamtökum Bandaríkjanna fyrir tímamótarannsóknir í jarðefnafræði, sem eru mikilvægar fyrir umhverfi og samfélag manna á jörðinni. Í ársbyrjun 2020 sæmdi forseti Íslands hann riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu.
 
Stjórn sjóðsins skipa Hermann Kristjánsson, verkfræðingur og frumkvöðull sem er formaður stjórnar, dr. Þór Sigfússon hagfræðingur og dr. Guðrún Pétursdóttir, dósent við Háskóla Íslands. Áætlað er að úthluta árlega úr sjóðnum á afmælisdegi Þorsteins Inga.
 
Um styrktarsjóðinn
 
Nýsköpunarsjóður dr. Þorsteins Inga Sigfússonar var stofnaður 4. júní 2020 til minningar um dr. Þorstein Inga Sigfússon (f. 4. júní 1954, d. 15. júlí 2019). Stofnandi sjóðsins er Bergþóra K. Ketilsdóttir, ekkja Þorsteins Inga.
 
Þorsteinn Ingi lauk doktorsnámi í eðlisfræði frá Cambridge-háskóla í Englandi árið 1983. Hann hóf störf sem fræðimaður við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands árið 1982 og síðar sem prófessor í eðlisfræði við háskólann. Þorsteinn Ingi vann ötullega að tengingu háskóla og atvinnulífs og kom að stofnun og stjórnarmennsku sprotafyrirtækja á mörgum sviðum. Hann var frumkvöðull á sviði orkurannsókna á Íslandi og beitti sér ötullega í baráttunni við að draga úr losun koltvíoxíðs í andrúmslofti. Þorsteinn Ingi varð forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands við stofnun hennar 2007. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir vísindastörf og framlag til hátækniatvinnugreina og hlaut rússnesku Alheimsorkuverðlaunin árið 2007 fyrir framlag sitt til vetnismála.
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is