Berglind Eva Benediktsdóttir, Jenny Sophie R. E. Jensen og Martin Messner, doktorsnemar við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, hafa hlotið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar lyfsala. Þetta er í fimmta sinn sem sjóðurinn veitir doktorsnemum í lyfjafræði við Háskóla Íslands viðurkenningu fyrir framúrskarandi rannsóknir í lyfjafræði. Heildarupphæð styrks er 1.050.000 krónur og hlýtur hver styrkhafi kr. 350.000.
Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar lyfsala er ætlað að styrkja vísindaleg afrek á sviði lyfjafræði, rannsóknir og framhaldsnám í faginu. Hefur sjóðurinn stutt við kraftmikla uppbyggingu doktorsnáms í lyfjafræði við Háskólann og gert nemendum kleift að kynna rannsóknir sínar erlendis og taka þátt í erlendu samstarfi í tengslum við doktorsnámið.
Rannsóknarverkefni Berglindar Evu Benediktsdóttur (berglib@hi.is) miðar að því að smíða nýjar vatnsleysanlegar kítosan afleiður og rannsaka notkun þeirra við lyfjagjöf. Kítósan er lífsamræmanleg fjölsykra, unnin úr rækjuskel. Ætlunin er að nota efnasmíðar til að þróa kítosan efni, sem auðvelda aðgengi prótein- og peptíðlyfja í gegnum lungnaþekjuvef. Prótein- og peptíðlyf eru m.a. notuð í meðferð á sykursýki og krabbameini. Í dag eru þessi lyf gefin með stungu en þægilegra væri fyrir sjúklinga ef þau væru gefin sem innöndunarlyf. Með þróun kítósan afleiðanna gætu opnast nýir meðferðarmöguleikar við þessum sjúkdómum. Efnasmíðavinnan hefur verið unnin við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla. Rannsóknir á áhrifum efnanna á lungnaþekjuvef verða gerðar við Læknadeild Háskóla Íslands. Berglind Eva lauk meistaraprófi í lyfjafræði vorið 2007. Hún hóf doktorsnám sama ár undir leiðsögn Más Mássonar prófessors og dr. med. Ólafs Baldurssonar, sérfræðings í lungnalækningum og framkvæmdastjóra lækninga við Landspítalann.
Rannsóknarverkefni Sophie Jensen (jennyj@hi.is) felur í sér að einangra og byggingargreina lífvirk efni úr íslenskum soppmosum. Einnig verða áhrif útdrátta og hreinna efna á málaríusníkil og krabbameinsfrumur rannsökuð. Soppmosar eru frumstæðar lágvaxnar plöntur, sem tilheyra mosafylkingunni. Soppmosar stunda efnahernað og framleiða efni til þess að verja sig í lífsbaráttunni. Einungis hafa örfáir íslenskir soppmosar verið rannsakaðir til þessa en þegar hefur komið fram að soppmosar geta verið uppspretta áhugaverðra lífvirkra efna, sem gætu reynst lofandi lyfjasprotar gegn malaríu og/eða krabbameini. Sophie lauk kandídatsprófi í lyfjafræði frá Háskóla Íslands árið 2006. Hún hóf doktorsnám árið 2008 undir leiðsögn Elínar Soffíu Ólafsdóttur prófessors og Sesselju Ómarsdóttur dósents.
Rannsóknarverkefni Martins Messner (messner@hi.is) gengur út á að rannsaka myndun og eiginleika sýklódextrín nanóagna og notkun slíkra agna sem örferjur lyfja. Sýklódextrín eru sykursambönd, sem eru notuð til að auka leysanleika lyfja í vatni og örva upptöku lyfja frá meltingarvegi. Slíkar ferjur má m.a. nota til að flytja lyf inn í augað, gegnum slímhúð eða til heilans en þvermál örferjanna er aðeins 100 til 200 nanómetrar. Martin lauk meistaraprófi í efnafræði árið 2007 frá Dresden University of Technology í Þýskalandi. Hann hóf doktorsnám árið 2007 undir leiðsögn Þorsteins Loftssonar prófessors.
Verðlaunahafarnir hafa allir birt vísindagreinar um rannsóknarverkefni sín og kynnt þau með erindum og veggspjöldum á vísindaráðstefnum hérlendis og erlendis.
Bent Scheving Thorsteinsson stofnaði sjóðinn í maí árið 2001 til minningar um föður sinn Þorstein Scheving Thorsteinsson lyfsala í Reykjavíkurapóteki og eiginkonu hans Bergþóru Patursson. Í desember 2007 bætti Bent um betur og lagði til viðbótarframlag við höfuðstól sjóðsins. Eigið fé sjóðsins er því orðið um 20 milljónir króna en samtals hefur Bent gefið Háskóla Íslands 60 milljónir króna með stofnun þriggja sjóða sem heyra undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands, allt frá stofnun skólans. Flestir starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.