Háskóli Íslands

Vigdís Finnbogadóttir sæmd heiðursdoktorsnafnbót

Á áttræðisafmæli Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, veitti Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda á Hugvísindasviði Háskóla Íslands Vigdísi doktorsnafnbót í heiðursskyni (doctor honoris causa) við hátíðlega athöfn í Hátíðasal Aðalbyggingar skólans. Fjölmargir velunnarar Vigdísar á öllum aldri sóttu viðburðinn sem Ásdís Rósa Magnúsdóttir, deildarforseti Deildar erlendra tungumála, stýrði. Við upphaf athafnarinnar söng stúlknakór Kársnesskóla nokkur lög og ávörp fluttu Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, Páll Skúlason, fv. rektor HÍ, Jón Torfi Jónasson, forseti Menntavísindasviðs, Ástráður Eysteinsson, forseti Hugvísindasviðs, og Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. Auk þess tók Vigdís Finnbogadóttir við viðurkenningu frá STÍL (Samtökum tungumálakennara á Íslandi) og afmæliskveðjum frá Alliance française á Íslandi en um eitt þúsund manns sendu Vigdísi persónulegar kveðjur á vef félagsins.

Doktor Vigdís Finnbogadóttir hefur með störfum sínum vakið jákvæða athygli á mikilvægi tungumálakunnáttu og menningarþekkingar og hefur framlag hennar aukið veg tungumála- og menningarrannsókna við Háskóla Íslands. Liðveisla hennar við tungumálin á alþjóðavísu hefur vakið verðskuldaða athygli. Það er því óumdeilt að Vigdís Finnbogadóttir hefur unnið ríkulega til þess að Háskóli Íslands veiti henni heiðursdoktorsnafnbót fyrir störf í þágu hugvísinda og er ekki síður sæmdarauki að því fyrir Háskólann.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is