Háskóli Íslands

Að vera að eða ekki vera að

Theódóra Torfadóttir, doktorsnemi við Íslensku- og menningardeild

„Ég er að athuga „vera að" plús nafnhátt í íslensku, eins og „vera að leika sér", segir Theódóra Torfadóttir um doktorsritgerðina sem hún er að vinna að um þessar mundir. Hún opnaði dyr sínar fyrir fréttamanni seint á desemberkvöldi og bauð inn í rúmgóða íbúð á Skólavörðuholtinu. Fyrir utan veifuðu stytturnar hans Einars.

- Þessi aukna notkun á að „vera að" í málinu er áhugaverð.

„Já," en stundum er „vera að" skyldubundið. Ég get ekki sagt við þig núna „hvað skrifarðu?", það verður að segja „hvað ertu að skrifa?" En það er nýtilkomið að þetta sé notað með sögnum sem tákna tilfinningu eða hugarástand. Það er líka mikið notað í íþróttalýsingum eins og „þeir eru að leika vel."

- Hvernig fer rannsóknin fram?

„Ég ber þessar breytingar saman við notkun sambandsins eða hliðstæðs sambands frá 13. öld og allt til dagsins í dag. Svo er ég líka að skoða sögulega þróun eða málbreytingar í setningagerð. Ég lauk við gagnaöflun árið 2007, en hún fór fram á vegum stærra verkefnis sem nefnist „Tilbrigði í setningagerð" og var stýrt af hópi málfræðinga hér við háskólann. Nú er ég að vinna úr niðurstöðunum og geri ráð fyrir lokaskilum næsta sumar eða haust."

- Ertu sjálf kannski að nota „að vera að" í ríkari mæli en áður?

„Breytingarnar urðu meðan ég bjó erlendis. Mér finnst þetta ekki eðlilegur hluti af mínu máli og hef ekki tileinkað mér þær, en það er auðvelt að smitast."

Leiðbeinandi: Höskuldur Þráinsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild. 

Theódóra hlaut styrk úr Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands 2007.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is