Háskóli Íslands

Áhrif andlegrar líðanar kvenna á meðgöngu og fæðingu

Sigríður Sía Jónsdóttir, ljósmóðir og lektor við Háskólann á Akureyri

 „Ætlunin er að meta hvort barnshafandi konur, sem stríða við þunglyndi og kvíða, upplifi frekar vandamál sem tengjast meðgöngu og fæðingu en þær sem ekki glíma við slíka sjúkdóma. Einnig verða metin áhrif félagslegs stuðnings og aðlögunar í nánu sambandi á líðan kvennanna,“ segir Sigríður Sía Jónsdóttir, ljósmóðir og lektor við Háskólann á Akureyri, en hún vinnur að rannsókn um áhrif andlegrar líðanar kvenna á meðgöngu og fæðingu.

Sigríður Sía hefur verið stundakennari í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands en leggur nú stund á doktorsnám við Linné-háskólann í Kalmar / Växjö í  Svíþjóð. Hún hefur hlotið styrk til rannsóknarinnar úr Minningarsjóði Bjargar Magnúsdóttur ljósmóður og Magnúsar Jónassonar bónda.

„Ég mun  skoða andlega vanlíðan,  samband við maka og félagslegan stuðning barnshafandi kvenna og meta áhrif  þessara þátta á vandamál sem upp kunna að koma á meðgöngu og í fæðingu. Í rannsókninni er hópur kvenna, sem hafa skimast og verið greindar með andlega vanlíðan, borinn saman við hóp kvenna sem hvorki hafa skimast né greinst með andleg vandamál,“ segir Sigríður Sía.

Að sögn Sigríðar Síu byggist rannsóknin á gögnum úr stærri rannsókn,  „Geðheilsa kvenna og barneignir“, sem safnað var á árunum  2006 – 2012 en alls tóku 2500 barnshafandi konur þátt í henni. Jón Friðrik Sigurðsson, prófessor við Læknadeild, er ábyrgðamaður hennar en upphaflegu hugmyndina á Halldóra Ólafsdóttir geðlæknir.  Vonast er til að niðurstöður rannsóknarinnar varpi frekara ljósi á mikilvægi þess að kanna geðheilsu kvenna á meðgöngu og að þær muni nýtast við  þróun þjónustu fyrir fjölskyldur á meðgöngu.

 „Áhugi minn á viðfangsefninu á rætur sínar að rekja til reynslu úr klínísku starfi mínu sem ljósmóðir í meðgönguvernd. Skimun fyrir andlegri líðan barnshafandi kvenna er ekki skipulagður hluti af meðgönguverndinni. Reynsla okkar sem störfum við hana er hins vegar sú að talsverður hluti kvenna hefur þörf fyrir meiri stuðning og þjónustu sem m.a. má rekja til andlegrar vanlíðanar og félagslegra vandamála.  Það er því sterkur drifkraftur að geta sýnt fram á hvað þessi hópur er hugsanlega stór, hvaða vandamálum gæti þurf að huga sérstaklega að á meðgöngu og fæðingu og hvernig hægt er að styrkja hina verðandi móður á meðgöngu og í undirbúningi fyrir fæðinguna, í gegnum fæðinguna og einnig við undirbúning að uppeldi barnsins,“ segir Sigríður Sía .

Sigríður Sía  segir að áður en undirbúningur og söfnun rannsóknargagnanna hófst  hefðu erlendar rannsóknir að megninu til beinst að þunglyndi kvenna eftir fæðingu. „Á meðgöngu hafa ljósmæður einstakt tækifæri til að mynda meðferðarsamband við barnshafandi konur og þar gefst mikilvægt tækifæri til að veita ráðgjöf og stuðning til að styrkja félagslegt bakland konunnar og samband við maka.,“ segir Sigríður Sía.

Þátttakendur í rannsókninni „Geðheilsa kvenna og barneignir“ voru skimaðar fyrir þunglyndi og kvíða á meðgöngu og svöruðu jafnframt spurningalistum sem meta sálfélagslega þætti. Í framhaldi af því voru tekin stöðluð viðtöl við 560 konur úr rannsóknarhópnum sem annars vegar tilheyrðu hópi, sem taldist með auknar líkur á þunglyndi eða kvíða, og hins vegar samanburðarhópi, sem ekki hefur átt við geðræn vandamál að stríða. Í viðtölunum var geðheilsa metin með viðurkenndum greiningaraðferðum.  

„Ég er nú að vinna fyrsta hluta rannsóknarinnar sem segja má að snúist um að kortleggja félagslega stuðning og aðlögun að sambandi við maka. Niðurstöður þess hluta munu liggja fyrir á næstu mánuðum. Þegar fyrsta hlutanum lýkur tekur við að skoða nánar áhrif á meðgöngu og fæðingar. Mig langar jafnramt að geta þess að að Linda Bára Lýðsdóttir, doktorsnemi við Læknadeild Háskóla Íslands, nýtir gögn úr upphaflegu rannsókninni í sínu námi og hún hefur nú þegar birt fyrstu greinina sína. Í henni koma fram sterkar vísbendingar um mikilvægi þess að skima konur á meðgöngu fyrir andlegri vanlíðan,“ segir Sigríður Sía að lokum.

Leiðbeinendur Sigríðar eru Dr. Katarina Swahnberg lektor við Linne-háskólann,  Marga Thome, prófessor emeritus, og Þóra Steingrímsdóttir, klínískur dósent við Háskóla Íslands.

Heiti rannsóknar: Tengsl milli geðheilsu barnhafandi kvenna, félagslegs stuðnings, sambands við maka og vandmála á meðgöngu og fæðingu.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is