Háskóli Íslands

Andleg líðan sjúklinga með kæfisvefn

Erla Björnsdóttir, doktorsnemi við Læknadeild

„Markmið þessarar rannsóknar er að meta svefnleysi og andlega líðan hjá sjúklingum með kæfisvefn,“ segir Erla Björnsdóttir, doktorsnemi við Læknadeild, um rannsókn sína.

Ætlun hennar er að meta þessa tvo þætti fyrir og eftir sex mánaða meðferð með svefnöndunartæki sem er algengasta og árangursríkasta meðferðin við kæfisvefni. Skoðað er hvernig andleg líðan og svefnleysi breytist þegar kæfisvefn er meðhöndlaður og áhrif þessara þátta á meðferðarheldni, það er hversu vel sjúklingum gengur að nota svefnöndunartækið. Erla bendir á að lengi hafi einkum verið litið á kæfisvefn sem líkamlegan sjúkdóm. „Það er þó ljóst að sökum lítillar hvíldar líður sjúklingum oft illa og komið hefur í ljós að þunglyndi og kvíði geta verið fylgifiskar sjúkdómsins. Meðferðarheldni sjúklinga með kæfisvefn er ekki nægilega góð og það er mikilvægt að finna þá þætti sem geta haft áhrif á meðferðarheldni og bregðast við þeim. Það er talið líklegt að geðheilsa og svefnleysi skipti þar töluverðu máli,“ segir Erla.

Búið er að vinna úr hluta niðurstaðna í rannsókninni sem lúta að svefnleysi. „Þær sýna að svefnleysi, einkum það að vakna oft á nóttunni, er mun algengara hjá sjúklingum með kæfisvefn en viðmiðunarhópum. Þessi einkenni lagast ef kæfisvefninn er vel meðhöndlaður. Það að eiga erfitt með að sofna og að vakna of snemma á morgnana hefur neikvæð áhrif á það hversu vel sjúklingar fylgja meðferðarleiðbeiningum,“ segir Erla.

Hún bendir á að kæfisvefn sé nokkuð algengur sjúkdómur í samfélaginu. Hann sé alvarlegur og hafi víðtæk áhrif á lífsgæði sjúklinga. „Ef sjúkdómurinn er ekki meðhöndlaður aukast líkur á háþrýstingi, sykursýki og  hjarta- og æðasjúkdómum. Það er því áhyggjuefni að meðferðarheldni skuli ekki vera betri. Mikilvægt er að skilja betur áhrif sjúkdómsins á geðheilsu sjúklinga. Jafnframt að bera kennsl á og bregðast við þáttum sem hafa áhrif á meðferðarheldni,“ bætir Erla við.

Erla hlaut á vordögum 2011 styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands vegna rannsóknar sinnar. Sjóðurinn hefur það að markmiði að veita styrki til stúdenta í rannsóknartengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands.

Leiðbeinandi: Jón Friðrik Sigurðsson, prófessor við Læknadeild.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is