Háskóli Íslands

Bundið mál á vestur-norrænu málsvæði á síðari öldum

Bjarki M. Karlsson, doktorsnemi við Íslensku- og menningardeild

Doktorsverkefni Bjarka M. Karlssonar, doktorsnema við Íslensku- og menningardeild, snýst um að auka þekkingu á málsögu og menningarsögu á hinu vestur-norræna málsvæði með því að kanna hrynjandi, ljóðstafi, rím og erindaskipan bundins máls á íslensku frá siðaskiptum, færeysku frá 18. öld og norsku fram að 17. öld.

Atkvæðainnskot í bragliði (hlutleysing) á síðari öldum verða kortlögð ásamt þróun ljóðstafa í löndunum þremur og hvarf þeirra úr norskum og færeyskum kveðskap. Þá verður dreifing i:e ríms í íslensku, einkum á 17. öld, kortlögð ásamt hljóðfræðilegum tilbrigðum endaríms á öllu málsvæðinu. Sérstök rannsókn verður gerð á bundnu máli á íslensku og færeysku eftir 1950 og þróun þess og rýnt í spágildi þróunarinnar. Máltækniforrit verða smíðuð í tengslum við rannsóknina til þess að greina með sjálfvirkum hætti hrynjandi, rím og stuðla í bundnu máli.

Leiðbeinandi: Kristján Árnason, prófessor við Íslensku- og menningardeild. Bjarki hlaut styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands í maí 2012.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is