Háskóli Íslands

Einelti meðal starfsfólks sveitarfélaga

Hjördís Sigursteinsdóttir, doktorsnemi í félagsfræði

Hjördís Sigursteinsdóttir, doktorsnemi í félagsfræði við Háskóla Íslands hlaut nýlega styrk úr Styrktarsjóði Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar. Rannsókn Hjördísar, Líðan og heilsa starfsfólks sveitarfélaga á Íslandi, felur í meginatriðum í sér að skoða líðan, heilsu og starfstengd viðhorf starfsmanna sveitarfélaga á tímum efnahagsþrenginga.

„Spurningalisti er lagður fyrir starfsfólk 20 af 22 stærstu sveitarfélaga landsins. Einelti, tíðni þess og gerendur er einn af þáttum sem eru til skoðunar en fylgst er með þátttakendum frá 2010-2012.“ Það má segja að efnahagshrun á Íslandi hafi skapað forsendu fyrir rannsókn Hjördísar. „Þjóðfélagslegar aðstæður í framhaldi af hruninu buðu upp á margvísleg spennandi viðfangsefni bæði innan félagsfræði og kynjafræði. Í kjölfar efnahagshruns beindust sjónir flestra að vinnumarkaðinum og þeim sem misstu vinnuna. Mikið var rætt um úrræði fyrir þá, áhrif á líðan þeirra og fjárhag heimilanna. Lítil eða engin umræða varð um þá sem eftir voru á vinnustöðum og þeirra líðan, hver áhrifin yrðu á vinnuanda og samskipti á vinnustað. Það vaknaði því hugmynd hjá mér að skoða þetta nánar. Starfsfólk sveitarfélaga varð fyrir valinu aðallega vegna þess að þá get ég skoðað gögnin mín bæði út frá búsetu og kyni.“

Hún segir að einelti sé alvarlegt vandamál á vinnustöðum sem ber að taka á um leið og það kemur upp. „Fyrirfram ákveðnir farvegir fyrir mál af slíkum toga þurfa að vera til staðar en þegar kemur að því er víða brotinn pottur. Sveitarfélög á Íslandi eru mörg mjög stórir vinnustaðir. Einelti hefur verið rannsakað á vinnustöðum ríkisins nokkrum sinnum og sýna niðurstöður að þörf er á markvissri fræðslu til ríkisstofnana um einelti. Vænta má að það eigi líka við um vinnustaði sveitarfélaga en einelti hefur lítið verið rannsakað á þeim vettvangi. Í gögnum mínum hef ég upplýsingar um tíðni eineltis og gerendur og það er mikilvægt að koma þeim upplýsingum á framfæri í því augnamiði að vekja athygli á vandamálinu þannig að hægt sé að taka á því.“

Þær niðurstöður Hjördísar sem liggja fyrir sýna að einelti er til staðar meðal starfsfólks sveitarfélaga og að það hefur aukist milli áranna 2010 og 2011. „Það þjóðfélagslega ástand sem við upplifum í dag opnar nýjar víddir í vinnustaðarannsóknum sem þessum. Rannsókn mín mun veita mikilvægar upplýsingar um einelti og heilsu og líðan starfsfólks íslenskra sveitarfélaga á tímum óvissu og skipulagsbreytinga. Hún verður því gott innlegg inn í vinnustaðarannsóknir sem þessa, ekki síst í ljósi þess að það er ekki aðeins efnahagshrun á Íslandi heldur nær fjármálakreppan til mun fleiri landa. Niðurstöðum rannsóknarinnar verður komið á framfæri við forsvarsmenn allra 20 sveitarfélaganna og þau hvött til þess að nota niðurstöðurnar til að stuðla að bættu starfsumhverfi starfsmanna sinna þar sem því verður við komið.“

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is