Háskóli Íslands

Erfðavistfræði og erfðalandfræði melgresis

Gilles Benjamin Leduc, doktorsnemi við Líf- og umhverfisvísindadeild

 

Melgresi (Leymus arenarius) er vistfræðilega mikilvæg plöntutegund á Íslandi en annars staðar eru væntingar bundnar við ættkvísl melgresis í landbúnaði. Þrátt fyrir mikilvægi melgresistegunda hafa litlar sameindaerfðafræðilegar rannsóknir verið gerðar á þeim helstu.

Í verkefni Gilles Benjamin Leduc, doktorsnema við Líf- og umhverfisvísindadeild, verður erfðavistfræði og landfræðileg skyldleikadreifni melgresis rannsökuð með Surtsey í brennidepli. Markmiðið er að prófa tilgátu um þróunarhraða samfara landnámi plantna með sameindaerfðafræðilegum aðferðum og að rekja uppruna melgresis, sem numið hefur land í Surtsey, með samanburði við melgresi frá Heimaey og fleiri svæðum við suðurströnd Íslands. Auk þess verður uppruni íslensks melgresis kannaður í samanburði við melgresi frá vesturströnd Evrópu og Skandinavíu.

Þegar niðurstöður um erfðavistfræði og skyldleikadreifni melgresis liggja fyrir verður mögulegt að mynda heildartilgátur um landnám plöntutegunda í Surtsey og um erfðalandfræði plantna á Norður-Atlantshafi.

Leiðbeinandi: Kesara Anamthawat-Jónsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild. Gilles Benjamin hlaut styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands í maí 2012.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is