Háskóli Íslands

Framhaldslíf íslenskra fornbókmennta í Japan

Jón Karl Helgason, prófessor við Íslensku- og menningardeild

 „Þessar rannsóknir eru óbeint framhald á rannsóknum á viðtökum Njáls sögu sem ég sinnti í upphafi fræðaferils míns,“ segir Jón Karl Helgason, prófessor við Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði Háskóla Íslands. Hann vinnur þessi misserin að bók á ensku um viðtökur Íslendingasagna og Eddukvæða um víða veröld. Bókin hefur vinnutitilinn „Blood and Honey: The Afterlife of Eddas and Sagas“.

Að sögn Jóns Karls er ávöxtur þessara rannsókna þrjár bækur, þar af tvær á íslensku, „Hetjan og höfundurinn“, sem út kom árið 1998, og „Höfundar Njálu“, sem út kom þremur árum síðar. „Í seinni bókinni skoðaði ég markvisst hvernig Njála hafði ratað inn í ólíkar bókmenntagreinar, þ.e. verið endurrituð sem leikrit, skáldsaga, ferðabók og barnabók, svo að dæmi séu tekin.“

Jón Karl hefur hlotið ferðastyrki úr Watanabe-styrktarsjóðnum við Háskóla Íslands og frá The Scandinavia-Japan Sasakawa Foundation til að stunda rannsóknir um nokkurra vikna skeið í Japan á komandi vetri og styrkja jafnframt tengsl við japanska fræðimenn í íslenskum fræðum. Meðal þess sem hann hyggst rannsaka og fjalla um eru áhrif íslenskra miðaldatexta í Japan, ekki síst á höfunda svonefndra manga-teiknimynda.

„Fyrir rúmu ári fór breskt útgáfufyrirtæki þess á leit við mig að ég skrifaði á ensku bók um endurritun Íslendingasagnanna og Eddukvæðanna, þar sem meðal annars væri kannað hvernig þessi rit hefðu haft áhrif á þekkta höfunda á borð við Ibsen, Wagner og William Morris, en líka hvernig kvikmyndagerðarmenn, teiknimyndasöguhöfundar og þungarokkarar hafa á síðari árum verið að leita fanga í gömlu bókmenntunum okkar. Meðal þess sem mig langar að skoða eru svonefndar manga-teiknimyndir en afkastamiklir höfundar á þeim akri eru Suður-Kóreumaðurinn Myung-Jin Lee og Japanarnir Makoto Yukimura, Syun Matsuena og Sakura Kinoshita,“ segir Jón Karl.

Jón Karl hefur lengi haft áhuga á að skoða framhaldslíf íslenskra fornbókmennta í Japan og segir ómetanlegt að fá tækifæri til að sinna rannsóknunum sínum á þeim vettvangi.

„Enda þótt þessi verk séu flest aðgengileg hér á landi er dýrmætt að átta sig betur á þeim jarðvegi sem þau spretta úr og ekki síður á þeim margháttuðu áhrifum sem þau hafa haft á ímynd Íslands og íslenskra bókmennta í Asíu og raunar víðar. En ég á líka von á að ferðin gagnist mér með almennari hætti. Ég kenni í námsgreininni íslensku sem annað mál og meðal nemenda minna er fólk sem hefur verið að læra íslensku við háskóladeildir erlendis, þar á meðal í Japan. Ég ætla nota tækifærið og styrkja í ferðinni tengsl við fræðimenn í Japan sem eru að kenna íslensku og sinna norrænum fræðum,“ segir Jón Karl að lokum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is