Háskóli Íslands

Gammablossar: Leiftur úr fjarlægri fortíð

Páll Jakobsson, prófessor við Raunvísindadeild

Gammablossar eru björtustu og orkumestu sprengingar í alheimi. Þeir eiga rætur að rekja til þyngdarhruns massamestu stjarnanna og eru þeir sýnilegir úr órafjarlægð. Gammablossar eru því tilvaldir til þess að kanna þróun vetrarbrauta í hinum unga alheimi.

Markmið þessa verkefnis Páls Jakobssonar, prófessors við Raunvísindadeild, er að rannsaka myndunartíma fyrstu stjarnanna og stjörnumyndunarsögu alheims. Stuðst verður við gögn frá hinu byltingarkennda Swift-gervitungli sem getur fundið og staðsett u.þ.b. 100 blossa á ári. Að auki verður fjöldi sjónauka nýttur til hins ýtrasta, m.a. Very Large Telescope (VLT) og Hubble-geimsjónaukinn. Glænýr litrófsriti á VLT, X-shooter, verður það tæki sem mest mun mæða á við að ná markmiðum verkefnisins.

Verkefni Páls hlaut styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands í maí 2012.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is