Marianne Elisabeth Klinke, doktorsnemi við Hjúkrunarfræðideild
Gaumstol (e. neglect) er algengt eftir slag í hægra heilahveli og dregur úr möguleikum einstaklinga á endurhæfingu vegna takmarkaðs innsæis þeirra í eigin getu. Þetta getur leitt til skertrar hreyfi- og sjálfsbjargargetu, aukinnar hættu á meiðslum, minni þátttöku í mikilvægum atburðum og meira álags á umönnunaraðila.
Klínískt matstæki fyrir hjúkrun til að meta gaumstol vantar og þekkingu skortir á því hvernig gaumstol birtist yfir lengri tíma á pappírs/blýantsprófi borið saman við kerfisbundið klínískt mat. Þekkingu skortir á reynslu sjúklinga með gaumstol og aðstandenda þeirra.
Markmið doktorsrannsóknar Marianne Elisabeth Klinke, doktorsnema við Hjúkrunarfræðideild, er að kanna klínískar birtingarmyndir og þróun gaumstols yfir lengri tíma ásamt því að lýsa reynslu einstaklinga, sem fengið hafa heilaslag, og aðstandenda þeirra af gaumstoli og almennri sjálfsbjargargetu.
Leiðbeinendur: Helga Jónsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild, Haukur Hjaltason, dósent við Læknadeild og sérfræðingur í taugalækningum við taugalækningadeild Landspítalans, og Björn Þorsteinsson, nýdoktor við Heimspekistofnun. Marianne Elisabeth hlaut styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands í maí 2012.