Háskóli Íslands

Hegðun burðarveggja í jarðskjálfta

Haukur Jörundur Eiríksson, verkfræðingur og aðjunkt við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild

Haukur Jörundur Eiríksson, verkfræðingur og aðjunkt við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands hlaut nýlega 4 milljóna króna styrk til doktorsverkefnisins Hegðun skerveggjabygginga á höfuðborgarsvæðinu í jarðskjálfta.

„Rannsóknin gengur út á að auka skilning á hegðun skerveggja í jarðskjálfta. Skerveggir eru þeir burðarveggir í byggingum sem taka upp lárétt álag frá vindi og jarðskjálfta. Hins vegar er grundvallarmunur á hönnunarforsendum skerveggja gagnvart þessum tveimur álagsformum. Vindálag eiga þeir að þola án skemmda, en við hönnunarjarðskjálftaálag er vísvitandi miðað við að skerveggirnir verði fyrir skemmdum í þeim tilgangi að eyða jarðskjálftaorkunni. Almennt er mun flóknara að sjá fyrir hegðun burðareininga þegar þær eru komnar yfir í „skemmda-fasann“ en þegar þær eru óskemmdar. Slík hegðun í bitum og súlum hefur verið rannsökuð töluvert, en skerveggir hafa ekki verið rannsakaðir í sama mæli,“ segir hann. Haukur segir að miklar skemmdir á eldri og nýrri byggingum í bænum Christchurch á Nýja‐Sjálandi í jarðskjálftanum í byrjun árs 2011 hafi verið kveikjan að rannsókninni. „Í skjálftanum urðu eldri byggingar fyrir skemmdum og féllu jafnvel saman, því þær voru byggðar fyrir tíma jarðskjálftastaðla. Nýjar byggingar skemmdust einnig, því þannig eru þær hannaðar. Hægt verður að gera við margar þeirra, en aðrar þarf að brjóta niður og endurbyggja með tilheyrandi kostnaði. Það er áhugvert og gagnlegt að rannsaka hver staðan er hér á höfuðborgarsvæðinu gagnvart væntanlegu jarðskjálftaálagi og leggja mat á hvaða hönnunarforsendum er skynsamlegt að fylgja.“

Haukur hefur starfað við burðarþolshönnun í nærri tvo áratugi og lengi haft áhuga á að rannsaka frekar hegðun skerveggjabygginga í jarðskjálfta. „Ef rannsóknarverkefnið gengur að óskum, gætu niðurstöðurnar haft áhrif á gildandi jarðskjálftastaðla, sem eru í stöðugri þróun. Niðurstöðurnar gætu einnig haft áhrif á jarðskjálftahönnun bygginga á höfuðborgarsvæðinu, því mikill fjöldi skemmdra bygginga í jarðskjálfta á fjölmennasta svæði landsins, mun sökum fámennis hafa víðtæk áhrif á land og þjóð.“

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is