Háskóli Íslands

Heilsa Íslendinga til forna

Hildur Gestsdóttir, doktorsnemi við Sagnfræði- og heimspekideild

„Kveikjan að rannsókninni kom úr tveimur áttum. Annars vegar var um að ræða rannsóknarverkefnið Heilsufarssaga Íslendinga frá landnámi til 18. aldar og hins vegar rannsókn á endurmati á gigt í beinagrindunum sem grafnar voru upp á Skeljastöðum í Þjórsárdal. Báðar þessar rannsóknir leiddu í ljós áhugaverðar niðurstöður um slitgigt í fornum íslenskum beinum," segir Hildur Gestsdóttir, sem vinnur að doktorsritgerð í fornleifafræði um gigt á Íslandi.

Rannsóknir á sjúkdómum í fornum mannabeinum geta gefið ýmsar upplýsingar. Þar á meðal eru upplýsingar um sjúkdóminn, orsakir, áhrif á beinin og áhrif sem sjúkdómar höfðu á einstaklinga áður en nútímalæknisfræði og lyf komu til. Einnig geta rannsóknir á sjúkdómum í beinagrindasöfnum gefið upplýsingar um viðurværi og aðstæður í fornum samfélögum.

„Markmið verkefnisins er að rannsaka gigtarsjúkdóma í fornum beinum, bæði út frá orsakafræðinni sem snýr að mestu að aldri, erfðum og álagi, en einnig út frá samfélaginu sem fólkið bjó í. Um 250 beinagrindur sem fundist hafa við fornleifauppgröft á Íslandi, tímasettar allt frá landnámi til 19. aldar, hafa verið rannsakaðar.

Í umfjöllunum um sjúkdóma í fornum beinum er gjarnan einblínt á sjúkdóminn, og ef eitthvað er fjallað um utanaðkomandi þætti þá er það í samhengi við það hvernig þeir gætu haft áhrif á sjúkdóminn, t.d. hvaða álag gæti orsakað slitgigt. Í minni rannsókn skoða ég áhrifin líka frá hinni hliðinni, að setja áhersluna á fólkið sjálft og fjalla um áhrifin sem sjúkdómurinn hafði á það og þannig á samfélagið," segir Hildur.

Hingað til hefur áhersla verið lögð á rannsóknir á lífsgæðum Íslendinga til forna, og breytingum á þeim, en mun minni áhersla hefur verið lögð á að rannsaka fólkið sjálft. „Mín rannsókn er liður í að breyta því," sagði Hildur að lokum.

Leiðbeinandi: Orri Vésteinsson, dósent við Sagnfræði- og heimspekideild. 

Hildur hlaut styrk úr Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands árið 2006.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is