Háskóli Íslands

Jómsvíkinga saga

Þórdís Edda Jóhannesdóttir, doktorsnemi við Íslensku- og menningardeild

Í doktorsrannsókn Þórdísar Eddu Jóhannesdóttur, doktorsnema við Íslensku- og menningardeild, verður sjónum beint að Jómsvíkinga sögu. Sagan er rituð á Íslandi, líklega snemma á 13. öld, og hefur nokkra sérstöðu innan íslenskra miðaldabókmennta. Hún fellur illa að hefðbundinni flokkun íslenskra miðaldabókmennta, einkum vegna samsetningar sagnfræði og skáldskapar.

Sagan, sem er varðveitt í fimm ólíkum gerðum, segir af norrænum mönnum, aðallega dönskum, á 10. öld. Raunverulegar persónur eru fyrirmyndir en sagnfræðileg áhersla er þó lítil. Ætlunin með rannsókninni er að nálgast söguna út frá bókmenntafræðilegu sjónarhorni í samhengi við sögur frá svipuðum tíma til þess að skýra betur sess hennar innan íslenskra miðaldabókmennta. Þá verða allar gerðir sögunnar kannaðar í því skyni að varpa ljósi á þróun hennar og viðtökur á miðöldum.

Leiðbeinandi: Ármann Jakobsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild. Þórdís hlaut styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands í maí 2012.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is