Háskóli Íslands

Kannar neikvæða fæðingarreynslu kvenna

Valgerður Lísa Sigurðardóttir, doktorsnemi við Hjúkrunarfræðideild

„Megintilgangur rannsóknarinnar er að skoða hversu algeng neikvæð fæðingarreynsla er meðal kvenna hér á landi og þróa íhlutun fyrir þann hóp kvenna sem hefur slíka reynslu. Fyrri rannsóknaniðurstöður benda til þess að neikvæð upplifun á fæðingu geti haft margvíslegar neikvæðar afleiðingar fyrir konu, barn og áhrif á samskipti hennar við maka,“ segir Valgerður Lísa Sigurðardóttir. Hún hefur hlotið styrk úr Minningarsjóði Bjargar Magnúsdóttur ljósmóður og Magnúsar Jónassonar bónda til að vinna að doktorsrannsókn sinni „Neikvæð fæðingarreynsla á Íslandi: Algengi, áhættuþættir og þróun ljósmóðurmeðferðar“.

Valgerður Lísa er sérfræðiljósmóðir og klínískur lektor á kvennadeild Landspítala. Jafnframt hefur hún um alllangt skeið verið stundakennari við námsbraut í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild háskólans. Sérsvið hennar er andleg líðan kvenna í barneignarferlinu og hefur hún veitt ráðgjöf og umönnun til kvenna  með geðrænan vanda, vímuefnavanda eða önnur vandamál sem tengjast andlegri líðan í barneignarferlinu. Frá árinu 2008 hefur Valgerður Lísa starfað með Ljáðu mér eyra, en það er sérhæfð viðtalsþjónusta ljósmæðra sem konur geta leitað til ef þær hafa þörf fyrir að ræða fæðingarreynslu sína.  Viðtalsþjónustan hefur verið starfrækt frá árinu 1999. Áhugi Valgerðar Lísu hefur undanfarin ár beinst að andlegri líðan kvenna í kringum barneign og þá sérstaklega fæðingarreynslunni.

Að sögn Valgerðar Lísu hefur tíðni og áhrifaþættir neikvæðrar fæðingarupplifunar verið skoðaðir erlendis en lítið hér á landi. „Fæðing er einn af stærstu viðburðunum í lífi fólks og minningar tengdar fæðingu geta lifað með því ævilangt. Neikvæð reynsla af fæðingu getur haft margvísleg neikvæð áhrif á líðan og heilsu konu, m.a. andlega vanlíðan sem getur haft áhrif á barnið og aðra fjölskyldumeðlimi,“ segir Valgerður Lísa..
Rannsóknin skiptist í þrjá hluta. Í fyrsta hluta verður tíðni neikvæðrar fæðingarreynslu skoðuð ásamt mögulegum forspárþáttum um slíka reynslu. Þar verða m.a.  skoðuð áhrif félagslegs stuðnings, sjálfmetinnar heilsu og tímalengdar frá fæðingu á upplifun konunnar af henni. Þessi hluti rannsóknarinnar byggist á gögnum úr rannsókninni Barneign og heilsa  þar sem gagnasöfnun fór fram víða um land á þremur tímapunktum; við 15-16 vikna meðgöngu og svo hálfu ári og tveimur árum eftir fæðingu.

Í öðrum hluta rannsóknarinnar verður kannað hvað hægt er að gera fyrir þær konur sem hafa upplifað fæðinguna á neikvæðan hátt. Spurt verður um hvort konur hafi þörf fyrir að ræða fæðingarreynslu sína, hvenær hentugur tími sé fyrir viðtöl um reynsluna og á hvern hátt slík viðtöl séu gagnleg.  Fyrir þennan hluta rannsóknarinnar  verða notuð gögn úr rannsókn  á viðtalsþjónustunni Ljáðu mér eyra á Landspítala og gögn úr rannsókninni Barneign og heilsa.

Í þriðja hluta rannsóknarinnar er stefnt á að nota niðurstöður úr fyrri hlutum verkefnisins til að þróa íhlutun og skoða hentugleika þess að innleiða ljósmóðurmeðferð fyrir konur sem hafa þörf fyrir að ræða fæðingarreynslu sína.
„Rannsókninni er ætlað að auka við þekkingu í  ljósmóðurfræði  og efla ljósmóðurmeðferð fyrir konur sem hafa upplifað erfiða fæðingu. Eðlileg tengslamyndun er barninu nauðsynleg fyrir vöxt þess og þroska. Þá benda rannsóknir til þess að neikvæð reynsla af fæðingu geti haft í för með sér ótta við seinni fæðingar og ósk um keisaraskurð án heilsufarslegrar ástæðu,“ segir Valgerður Lísa að lokum.

Leiðbeinandi: Helga Gottfreðsdóttir, dósent við Hjúkrunarfræðideild.
Meðleiðbeinandi: Herdís Sveinsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is