Háskóli Íslands

Launavinna ungmenna

Margrét Einarsdóttir, doktorsnemi við Félags- og mannvísindadeild

Atvinnuþátttaka ungmenna sveiflast með efnahagsástandinu," segir Margrét Einarsdóttir, doktorsnemi í félagsfræði, sem rannsakar launavinnu 13-17 ára ungmenna.

Margrét skoðar vinnu ungmenna út frá tveimur sjónarhornum, annars vegar sjónarhorni sem leggur áherslu á að vinna geti verið börnum og unglingum skaðleg og að það þurfi að vernda þau frá hættum vinnunnar, og hins vegar sjónarhorni sem leggur áherlsu á að vernda eigi börn og unglinga með því að tryggja réttindi þeirra í vinnunni, kjósi þau að vinna launaða vinnu eða þurfi þau að vinna af efnahagslegri nauðsyn.

Miklar breytingar hafa orðið á störfum ungmenna á síðustu tíu árum. „Veturinn 1997- 1998 unnu 15% ungmenna við verslunarstörf en 2007-2008 var hlutfallið komið í 41%," segir Margrét. Þess ber þó að gæta að rannsókn Margrétar var gerð á hátindi efnahagsþenslunnar.

„Þar sem atvinnuþátttaka ungmenna sveiflast gjarnan með efnahagnum má leiða að því líkur að dregið hafi úr vinnu ungmenna með skóla og að hlutur verslunarstarfa hafi jafnvel dregist saman á ný."

Margrét skoðaði einnig viðhorf ungmennanna sjálfra til vinnunnar. „Peningurinn er helsta ástæða þess að þau vinna en aðrir þættir, svo sem aukið sjálfstæði frá foreldrum, skipta líka máli. Í einstaka tilfellum segjast ungmennin þurfa að vinna til þess að eiga fyrir brýnustu nauðsynjum."

Leiðbeinandi: Guðbjörg Linda Rafnsdóttir,prófessor í félagsfræði. 

Margrét hlaut doktorsnemastyrk úr Rannsóknasjóði 2007.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is