Háskóli Íslands

Leit að lyfjasprotum gegn Alzheimers

Natalia Magdalena Pich, doktorsnemi við Lyfjafræðideild

„Markmið verkefnisins er að leita virkra náttúruefna úr íslenskum lágplöntum og fléttum sem mögulega gætu gagnast sem lyf við Alzheimers-sjúkdómnum,“ segir Natalia Magdalena Pich, doktorsnemi við Lyfjafræðideild.

Mikil þörf er á betri lyfjum með öflugri verkun og minni aukaverkunum en til eru í dag. „Mér þykir þessi rannsókn sérlega áhugaverð vegna þess að hún snýst um að leita náttúruefna sem gætu orðið fyrirmyndir að nýjum lyfjum. Í sögulegu samhengi hefur notkun náttúrulegra efnasambanda í lyfjagerð skilað góðum árangri og heldur án efa áfram að leika stórt hlutverk í þróun nýrra lyfja í framtíðinni,“ segir Natalia en hún er frá Póllandi.

Lífvirk efnasambönd sem fengin eru úr náttúrunni gegna lykilhlutverki í meðferð margra erfiðra og algengra sjúkdóma þ.á m. Alzheimers-sjúkdómsins. Enn fremur varpa lífvirk efnasambönd oft betra ljósi á líffræðina á bak við sjúkdómana.

Lyf sem nú eru notuð við Alzheimers-sjúkdómnum eru flest svokallaðir kólínesterasahindrar og þótt þau hægi á framgangi sjúkdómsins er notagildi þeirra takmarkað. Mikil þörf er á betri lyfjum með öflugri verkun og minni aukaverkanir. Nýlega hefur verið sýnt fram á að efni sem hafa áhrif á svokallaða nikotínasetýlkólínviðtaka gætu reynst gagnleg Alzheimers-lyf ásamt áðurnefndum  kólínesterasahindrum.

„Aðferðin sem ég nota til að finna virkustu náttúruefnin, og hanna afleiður af þeim, nefnist in silico molecular modelling,“ segir Natalia og bætir við að aðferðin gangi út á leit og hermilíkanamátun í tölvu við  próteinkristalbyggingar af kólínesterasaensíminu og nikótín-asetýlkólínviðtökum. Vænleg efni verða síðan prófuð í svokölluðum „in vitro“ lífvirkniprófum.

Sameindahermilíkanagerð er ný nálgun á sviði rannsókna á lífvirkum náttúruefnum á Íslandi og mun geta gagnast öðrum rannsóknum á nýjum lyfjasprotum þar sem virknin byggist á bindingu við þekkt prótein, s.s. ensím og viðtaka. Rannsóknin er unnin í samstarfi við rannsóknarteymi um sameindahermilíkön við Lyfjafræðideild Kaupmannahafnarháskóla.

Natalia hlaut á vordögum 2011 styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands vegna rannsóknar sinnar. Sjóðurinn hefur það að markmiði að veita styrki til stúdenta í rannsóknartengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands.

Leiðbeinandi: Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is