Háskóli Íslands

Merkjafræðin hjálpar læknum

Magnús Örn Úlfarsson, lektor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild

Magnús Örn Úlfarsson er sérfræðingur í merkjafræði, en hún fæst í stuttu máli við greiningu og meðhöndlun gagna á rafrænu formi frá myndum og hljóðum og öðrum rafmagnsmerkjum. 

Ég hef mestan áhuga á hagnýtingu merkjafræði í læknisfræði,“ segir Magnús, en hann vinnur að þróun hugbúnaðar og merkjafræðiaðferða, sem hann hyggst beita á hjartalínurit frá sjúklingum með hjartsláttarflökt. Rannsóknir Magnúsar Arnar í hjartalækningum snúast sem sagt um að búa til tæki og hugbúnað, sem greinir hjartalínurit frá sjúklingum. „Til dæmis getur tækið greint, á hvaða tíðnibandi hjartasláttarflöktið er staðsett og fylgst með því, hvort þessar tíðniupplýsingar eru stöðugar í tíma, og það hjálpar læknum að fylgjast með hvort meðferð er árangursrík,“ segir Magnús Örn. Tækið nýtist bæði í eftirvinnslu gagna og í rauntíma, meðan á aðgerð stendur. „Og gaman er að segja frá því að tækið hefur þegar verið prófað í rauntíma og það sannreynt að það virkar vel,“ segir Magnús og brosir.

Magnús Örn hefur einnig notað svokallaða fMRItækni til þess að nema staðbundnar breytingar í heilablóðflæði, á meðan sjálfboðaliði framkvæmir fyrirfram ákveðnar aðgerðir, t. d. einfaldan hugarreikning. „Ég nota þessi gögn til þess að búa til tölvumyndir, sem sýna sálfræðingum og taugasérfræðingum, hvar virkni er í heilanum, þegar þessi hugarstarfsemi er gerð (hugarreikningur). Mínar aðferðir miða að því að notfæra sér eiginleika og uppbyggingu fMRI-gagnanna á hagkvæmari hátt en eldri aðferðir gerðu og þær hafa gefið nákvæmari niðurstöður.“

Magnús Örn vinnur í alþjóðlegu teymi við rannsóknir sínar. „Ég er að vinna með mönnum í University of New South Wales í Ástralíu og University of Michigan í Bandaríkjunum við að þróa algríma fyrir kvika segulómsskoðun, og í tengslum við hjartarannsóknirnar hef ég unnið með teymi í háskólasjúkrahúsi University of Michigan.“ Það felst töluverð skriffinnska í rannsóknarstarfinu, og nýlega fékk Magnús Örn ásamt samstarfsmönnum sínum birtar fjórar ritrýndar ISI-greinar í alþjóðlega viðurkenndum tímaritum. Þá má geta þess að rannsóknarteymið vinnur að umsókn um einkaleyfi á tæki og hugbúnaði fyrir hjartalækningar.

Rannsóknasjóður hefur styrkt verkefnið.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is