Háskóli Íslands

Mikilvæg þróun jarðskjálftaverkfræði

Aldís Sigfúsdóttir ráðgjafarverkfræðingur

Aldís Sigfúsdóttir ráðgjafarverkfræðingur og Ragnar Sigbjörnsson, prófessor við Rannsóknamiðstöð í jarðskjálftaverkfræði hlutu styrk úr Menningar- og framfarasjóði Ludvigs Storr á árinu 2011. Rannsókn þeirra snýst um það að tengja saman upplýsingar um jarðskjálftaskemmdir niðurgrafinna lagna og kennistærðir yfirborðshreyfinga jarðskjálfta.

„Rannsóknin er byggð á mælingum yfirborðshreyfinga jarðskjálftans á Suðurlandi 2008 á ýmsum stöðum í Hveragerði og því tjóni sem jarðskjálftinn olli á niðurgröfnum lögnum.“ Kveikja að rannsókninni er sú staðreynd að jarðskjálftatjón holræsalagna Hveragerðisbæjar frá jarðskjálftanum 2008 hefur verið metið á 21,4% af endurstofnverði kerfisins. „Sú staðreynd að við höfum upplýsingar um þær hreyfingar sem jarðskjálftinn 2008 olli innan bæjarins gerir það að verkum að endurbætur á hönnunaraðferðum eru raunhæfar. Fjallað hefur verið um þessar mælingar í fjölmörgum greinum sem birtar hafa verið hérlendis og erlendis í tengslum við svonefnt ICEARREY verkefni.“

Aldís og Ragnar segja mikið magn upplýsinga um skjálftann einstakt í heiminum en þau hafa lengi unnið að rannsóknum tengdum lagnakerfum í áraraðir m.a. á Suðurlandi. „Með ofangreint í huga er hægt að tengja saman skemmdir og kennistærðir yfirborðshreyfinga sem skýra munu jarðskjálfaáhrif á hegðunarmynstur og viðbrögð lagna við jarðskjálftaáraun. Með því að nýta slíkar upplýsingar ásamt því að beita tölulegum líkönum og greiningartækni, sem þróuð hefur verið á Jarðskjálftamiðstöðinni á Selfossi, fást niðurstöður er leiða munu til bættra hönnunaraðferða.“

Þau vonast til þess að niðurstöður verkefnisins dragi úr skemmdun á lagnakerfum á jarðskjálftasvæðum með hjálp bættra hönnunaraðferða og leiði þannig til aukins öryggis lagnakerfa. „Almennt má segja að mælingar á áhrifum jarðskjálfta á niðurgrafin lagnakerfi séu mjög takmarkaðar. Því er mikill fengur að þessu rannsóknarverkefni fyrir þróun jarðskjálftaverkfræði.“

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is