Háskóli Íslands

Möguleikar blindra og sjónskertra rannsakaðir

Hanna Björg Sigurjónsdóttir, dósent í fötlunarfræði

Hanna Björg Sigurjónsdóttir, dósent í fötlunarfræði, rannsakar möguleika blinds og sjónskerts fólks til að stunda háskólanám á Íslands með því að kanna reynslu blinds og sjónskerts fólks af háskólanámi. Hún hlaut styrk úr Þórsteinssjóði í desember 2011.

„Kveikjan að verkefninu og ástæða þess að þetta viðfangsefni var valið má rekja til niðurstaðna rannsóknarinnar Jafnrétti til náms - Réttur og raunveruleiki fatlaðra nemenda við Háskóla Íslands þar sem í ljós kom að möguleikar blinds og sjónskerts fólks til að stunda háskólanám á Íslandi eru mjög takmarkaðir. Enginn blindur einstaklingur hefur lokið námi frá Háskóla Íslands síðastliðinn áratug og reynsla þeirra sem hófu nám en luku því ekki bendir til þess að nauðsynleg stuðningsúrræði séu ekki til staðar.“ Hanna Björg segir að á sama tíma hafi Háskóli Íslands stórbætt stuðning við heyrnarlausa nemendur. Árangur þess átaks leiddi til þess að fyrstu heyrnarlausu nemendurnir voru útskrifaðir árið 2009 og árið 2011 stunduðu 15 heyrnarlausir nemendur nám við skólann.

„Rannsóknin er á upphafsstigi en fyrstu niðurstaðna er að vænta haustið 2012. Við væntum þess að þær muni verða til þess að auka skilning á nauðsynlegum stuðningsúrræðum og betri kennsluháttum og auðveldi þannig blindu og mikið sjónskertu fólki að fara í og ljúka háskólanámi.“ Hún segir að gildi rannsóknarinnar felist í aukinni þekkingu og skilningi á samfélagslegri stöðu blindra og sjónskertra nemenda og því geti niðurstöður hennar haft áhrif á stefnumótun í málaflokknum.

„Vísindalegt gildi rannsóknarinnar felst annars vegar í aukinni þekkingu og dýpri skilningi á aðstæðum blindra og sjónskertra háskólanema og þeim fjölmörgu hindrunum sem þeir þurfa að yfirstíga til að ljúka námi, og hins vegar í meiri skilningi á nauðsynlegum stuðningsúrræðum og betri kennsluháttum. Forsvarsmenn hagsmunasamtaka fatlaðs fólks hafa lengi bent á að aukin menntun, sérstaklega háskólamenntun sé grunnforsenda þess að ná árangri í baráttunni fyrir jafnri stöðu og tækifærum fatlaðs fólks í samfélaginu. Því er bætt aðgengi að háskólum landsins á jafnréttis- og jafnræðisgrunni nauðsyn. Sú mismunun á grundvelli fötlunar sem ennþá á sér stað verður að greina og síðan uppræta.“ 

 

 

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is