Háskóli Íslands

Næring ungbarna fyrstu sex mánuðina

Ólöf Helga Jónsdóttir, doktorsnemi við Matvæla- og næringarfræðideild

„Rannsóknin hefur það að markmiði að auka þekkingu á áhrifum þess að hafa börn eingöngu á brjósti fyrstu sex mánuði ævinnar. Áhrif á vöxt, líkamssamsetningu, járnbúskap og aðrar heilsufarsbreytur eru mæld,“ segir Ólöf Helga Jónsdóttir, doktorsnemi í næringarfræði. Í rannsókn sinni ber hún saman hvaða áhrif það hefur á heilsu barns að móðir gefi því eingöngu brjóstamjólk í sex mánuði frá fæðingu eða byrji samhliða brjóstagjöf að gefa aðra fæðu við fjögurra mánaða aldur barnsins.

Um er að ræða íhlutandi slembiraðaða rannsókn þar sem tveir hópar barna voru rannsakaðir, annars vegar börn sem fengu aðra fæðu samhliða brjóstagjöf frá fjögurra mánaða aldri og hins vegar börn sem fengu eingöngu brjóstamjólk til sex mánaða aldurs. „Upplýsingum var safnað um mataræði barna sem fengu viðbótarfæði samhliða brjóstagjöf. Með tækni sem byggð er á merktu vatni fást upplýsingar um magn brjóstamjólkur sem börnin drukku frá 5½–6 mánaða aldurs og líkamssamsetningu þeirra út frá hlutfalli vatns og fituvefs í líkama þeirra. Upplýsingum var einnig safnað um járnbúskap og vöxt barnanna. Unnið er að úrvinnslu gagna og eru fyrstu niðurstöður væntanlegar á næstunni,“ segir Ólöf Helga.

Víðast hvar var lengi vel ráðlagt að gefa ungbörnum eingöngu brjóstamjólk í fjóra til sex mánuði frá fæðingu, en frá árinu 2001 hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin ráðlagt brjóstamjólk eingöngu til sex mánaða aldurs. „Samtímis því að ráðleggingunum var breytt var hvatt til frekari rannsókna á áhrifum slíkra ráðlegginga. Það er því brýn þörf fyrir rannsóknir sem þessa sem getur orðið grundvöllur fyrir bestu mögulegu ráðleggingar um næringu ungbarna,“ segir Ólöf Helga.

Ólöf Helga hlaut á vordögum 2011 styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands vegna rannsóknar sinnar. Sjóðurinn hefur það að markmiði að veita styrki til stúdenta í rannsóknartengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands.

Leiðbeinandi: Inga Þórsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is