Háskóli Íslands

Nanótækni nýtt við lyfjagjöf

Maria Dolores Moya Ortega, doktorsnemi við Lyfjafræðideild

„Með nanótækni (e. nanopharmaceuticals) er hægt að beina lyfjum á ákveðna staði í líkamanum, lengja verkun þeirra og draga úr aukaverkunum. Verkefnið fjallar um hönnun og rannsóknir á svokölluðu nanó- og míkróhlaupi fyrir lyfjagjöf í augu, nef og munnhol,“ segir Maria Dolores Moya Ortega, doktorsnemi í lyfjafræði, um doktorsverkefni sitt sem hún vinnur að um þessar mundir undir leiðsögn Þorsteins Loftssonar prófessors. Maria hefur hlotið styrk til rannsóknarinnar að upphæð 400 þúsund krónur úr Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar lyfsala.

Að sögn Mariu er umrætt hlaup sett út í lausnir, t.d. augndropa, þar sem það eykur leysni lyfja og lengir viðverutíma þeirra á yfirborði slímhimna. „Svokallaðar sýklódextrísameindir, sem eru örsmáar sykrungar, eru tengdar saman í stærri hlaupkenndar agnir. Stærð hlaupagnanna og krosstenging þeirra við fjölliður (e. polymer) hefur áhrif á slímviðloðun agnanna sem aftur hefur áhrif á hversu lengi hlaupagnirnar staldra við á yfirborði augans eða í munnholinu,“ segir Maria.  Fjölliður eru stór sameind (e. molecule) sem samsett er úr fjölmörgum smærri sameindum eða keðjum sameinda. Að jafnaði loða agnirnar betur við yfirborð eftir því sem þær eru stærri og áhrifin af lyfjunum vara lengur.

Maria útskýrir samspil hlaupagnanna og lyfja á eftirfarandi hátt: „Sýklódextríneiningarnar í hlaupinu mynda fléttur við fitusæknar lyfjasameindir. Þessar bundnu lyfjasameindir losna síðan hægt frá hlaupinu og frásogast inn í slímhimnuna. Verið er að rannsaka nanóhlaup í lyfjaformum eins og augndropum og meta áhrif þess á flutning lyfja inn í augað.“

Að sögn Maríu hafa nú þegar verið rannsakaðar margvíslegar fléttur lyfja og sýklódextrínsameinda  „Nokkrar gerðir af sýklódextrínfjölliðum hafa verið samtengdar og eðlisefnafræðilegir eiginleikar þeirra rannsakaðir. Næstu skref eru að nota valdar fjölliður, nanóhlaup, í lyf eins og augndropa, munnlausnartöflur og nefúða og ákvarða áhrif þeirra á flutning lyfja inn í augað, munninn og nefið,“ segir María að lokum.

Maria lauk MS-prófi í lyfjafræði frá University of Sevilla árið 2008. Hún hóf doktorsnám árið við Háskóla Íslands haustið 2008 undir leiðsögn Þorsteins Loftssonar prófessors.  Verkefni Maríu er unnið í samvinnu við háskólann í Santiago de Compostela á Spáni.

Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar er ætlað að styrkja vísindaleg afrek á sviði lyfjafræði, rannsóknir og framhaldsnám í faginu. Þetta er í sjötta sinn sem sjóðurinn veitir doktorsnemum í lyfjafræði við Háskóla Íslands viðurkenningu fyrir framúrskarandi rannsóknir í lyfjafræði. Sjóðurinn hefur stutt við kraftmikla uppbyggingu doktorsnáms í lyfjafræði við Háskólann og gert nemendum kleift að kynna rannsóknir sínar erlendis og taka þátt í erlendu samstarfi í tengslum við doktorsnámið.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is