Irina Domurath, doktorsnemi við Lagadeild
Eftir fjármálakreppuna standa margir neytendur á Íslandi, í Evrópu og víðs vegar um heiminn frammi fyrir aukinni skuldsetningu. Í doktorsverkefni Irinu Domurath, doktorsnema við Lagadeild, verða skoðaðar breytingar á evrópskri neytendalöggjöf og hvernig hið evrópska efnahagssvæði tryggir aukna neytendavernd.
Núverandi aðferðir framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins felast í því að samræma að fullu evrópska neytendalöggjöf og standa vörð um frelsi einkaaðila til frjálsra samninga. Fræðimenn sem láta sig varða dreifingu valdheimilda og félagslegt réttlæti hafa gagnrýnt þessa nálgun en benda þó ekki á eina heldur mismunandi lausnir.
Doktorsverkefnið miðar að því að skapa nýja þekkingu á sviði neytendalána og húsnæðislána á grundvelli hugtaka eins og félagslegs réttlætis og samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækja. Í verkefninu verður á nýstárlegan hátt kannaður möguleikinn á að þróa almenna „neytendalánaþjónustu“ sem byggist á lögum um almannaþjónustu innan Evrópusambandsins. Rannsóknin kemur til með að nýtast sem framlag til umbóta á evrópskum neytendarétti.
Leiðbeinandi: Maria Elvira Mendéz Pinedo, prófessor við Lagadeild. Irina hlaut styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands í maí 2012.