Háskóli Íslands

Ragnarök

Kolfinna Jónatansdóttir, doktorsnemi við Íslensku- og menningardeild

Kolfinna Jónatansdóttir, doktorsnemi við Íslensku- og menningardeild, beinir sjónum sínum að ragnarökum, heimsendi í norrænni goðafræði, í sinni rannsókn.

„Annars vegar skoða ég ragnarök innan norrænnar heimsmyndar, gildi þeirra í trú og menningu og þá guði og óvætti sem taka þátt í þeim og hvert hlutverk þeirra og samspil er. Hins vegar athuga ég tengingar ragnaraka við heimsendagoðsagnir annars staðar frá og hvaða áhrif mennta- og menningarheimur ritunartímans hafi mögulega haft á þær heimildir sem til eru,“ segir Kolfinna.

Kolfinna segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á norrænni goðafræði og í MA-ritgerð sinni hafi hún fengist við afkvæmi Loka. „Þar sem tvö afkvæma hans, Fenrisúlfur og Miðgarðsormur, koma ásamt Loka mjög við sögu í ragnarökum þá fjallaði einn kafli ritgerðarinnar um ragnarök. Á meðan á þeirri vinnu stóð kom mér á óvart hversu lítið hefur í raun verið fjallað um ragnarök og hversu mörgum spurningum er að mínu mati ósvarað um þau. Því langaði mig til að gera þeim betri skil,“ segir Kolfinna enn fremur.

Kolfinna segir rannsóknina nokkuð á veg komna en enn sé of snemmt að draga afgerandi ályktanir. Hún vonast til þess að afrakstur verkefnisins verði verðugt innlegg í umræðu um norræna goðafræði og varpi nýju ljósi á norrænar heimsendagoðsagnir og hlutverk guða og óvætta í þeim.

Kolfinna hlaut á vordögum 2011 styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands vegna rannsóknar sinnar. Sjóðurinn hefur það að markmiði að veita styrki til stúdenta í rannsóknartengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands.

Leiðbeinandi: Ármann Jakobsson, dósent við Íslensku- og menningardeild.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is