Háskóli Íslands

Smærri og endingarbetri tölvugagnageymslur

Pavel F. Bessarab, doktorsnemi við Raunvísindadeild

„Þetta verkefni felur í sér grunnrannsóknir á eiginleikum nanósegla og þróun á aðferðafræði til að reikna út hversu hratt segull fer úr einu ástandi yfir í annað vegna varma. Hugsanlega verður hægt að nota þetta síðar meir til að hanna smærri og skilvirkari gagnageymslur fyrir tölvur,“ segir Pavel F. Bessarab, doktorsnemi í efnafræði. „Verkefnið er í mínum huga einkar áhugavert vegna þess að það getur tengst hlutum sem allir nota, svo sem hörðum diskum í tölvum.“

Flestir í vestrænu nútímasamfélagi þekkja til tölva og tölvunotkunar. Það sem tölvan „man“ er geymt á hörðum diski og án hans mundi hún ekki virka. „Ekki er ljóst hversu lengi hægt er að geyma gögn á hörðum diski án þess að eitthvað glatist,“ segir Pavel sem er frá Rússlandi. „Þessi rannsókn gengur út á að meta hversu oft breytingar verða sem m.a. gætu eyðilagt slíkar upplýsingar. Einnig gætu niðurstöðurnar hjálpað til
við að gera gagnageymslur smærri en áður og hlutfallslega ódýrari í framleiðslu. Í hörðum diskum í tölvum eru segulástönd lítilla agna notuð til að skrá upplýsingar. Ef hægt verður að minnka agnirnar niður á nanóskala, verður hægt að auka geymslugetuna margfalt.“

„Við höfum þegar þróað líkingu byggða á tölfræðinálgun til að meta hraða spunabreytinga við gefið hitastig. Hana þarf að þróa frekar og beita á ýmis kerfi. Til þessa höfum við aðeins skoðað mjög einföld kerfi. Það sem við tekur er að gera líkinguna almennari og beita henni á raunveruleg kerfi,“ segir Pavel. „Þá verður hægt að nýta hana til rannsókna á hlutum gerðum úr ýmsum efnum í þeim tilgangi að finna besta efnið
til að fá fram tiltekna seguleiginleika, t.d. efni í nanóskalaögnum sem geta geymt upplýsingar í ásættanlega langan tíma.“

Pavel hlaut á vordögum 2011 styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands vegna rannsóknar sinnar. Sjóðurinn hefur það að markmiði að veita styrki til stúdenta í rannsóknartengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands.

Leiðbeinandi: Hannes Jónsson, prófessor við Raunvísindadeild.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is