Mardís Sara Karlsdóttir, doktorsnemi við Sálfræðideild
Rannsóknir hafa sýnt að sterk viðbrögð í hjarta- og æðakerfinu við sálfræðilegri streitu er áhættuþáttur fyrir þróun sjúkdóma, t.d. háan blóðþrýsting, sykursýki 2 og jafnvel hjartaáfall. Heilablóðfall hefur marga sameiginlega áhættuþætti við aðra hjarta- og æðasjúkdóma en streituviðbrögð hjá fólki með fjölskyldusögu um heilablóðfall hafa lítið verið könnuð. Auk þess hafa flestar rannsóknir á líffræðilegum viðbrögðum við streitu einungis beinst að svokölluðum sympatískum viðbrögðum taugakerfis sem lýsa sér m.a. í auknum hjartslætti og hærri blóðþrýstingi. Nýlegri rannsóknir hafa hins vegar sýnt að svokölluð parasympatísk viðbrögð, þ.e. þegar búið er að takast á við streituvald og hjartsláttur hægist og jafnvægi kemst á líkamann, séu hugsanlega einnig mikilvæg í þróun hjarta- og æðasjúkdóma.
Markmið rannsóknarverkefnis Mardísar Söru Karlsdóttur, doktorsnema við Sálfræðideild, er m.a. að kanna hvort þátttakendur með fjölskyldusögu um heilablóðfall sýni sterkari sympatísk og parasympatísk viðbrögð í streitutengdum aðstæðum en þeir sem ekki hafa slíka fjölskyldusögu.
Leiðbeinandi: Daníel Þór Ólason, dósent við Sálfræðideild. Mardís Sara hlaut styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands í maí 2012.