Háskóli Íslands

Sýkingar meðal leikskólabarna ekki algengari en í öðrum löndum

Þórólfur Guðnason, doktor í lýðheilsuvísindum frá Háskóla Íslands

 „Öndunar- og meltingarfærasýkingar eru langalgengustu sjúkdómar sem hrjá börn. Oftast eru þessar sýkingar ekki alvarlegar en geta verið lífshættulegar, valdið alvarlegum fylgikvillum og verið mjög kostnaðarsamar fyrir fjölskyldur barnanna og samfélagið í heild. Það er því brýnt að kortleggja þessa sjúkdóma hér á landi og finna einfaldar leiðir til draga úr tíðni þeirra,“ segir Þórólfur Guðnason, barnalæknir og sérfræðingur í smitsjúkdómum barna. Þórólfur hlaut styrk úr Verðlaunasjóði Óskars Þórðarsonar læknis til að leggja lokahönd á doktorsrannsókn sína en hann lauk doktorsprófi í lýðheilsuvísindum frá Háskóla Íslands veturinn 2013.

„Doktorsverkefnið mitt fjallaði um sýkingar og útbreiðslu pneumkókokkabaktería hjá börnum á íslenskum leikskólum Megimarkmiðið var í fyrsta lagi að kanna tíðni öndunar- og meltingarfærasýkinga hjá börnum. Í öðru lagi var rannsökuð útbreiðsla  pneumókokka hjá börnunum. Í þriðja lagi voru áhættuþættir fyrrgreindra sýkinga og áhættuþættir útbreiðslu pneumókokka kannaðir og í fjórða lagi var rannsakað hvort hreinlætisaðgerðir á leikskólunum gætu dregið úr ofangreindum sýkingum og útbreiðslu pneumókokka,“ segir Þórólfur.

Þórólfur segir fjölmargar erlendar rannsóknir hafa sýnt að dagvistun barna eykur áhættu á mörgum sýkingum án þess að ljóst sé hvaða þættir stýri áhættunni. Margir hafa bent á að almennt hreinlæti skipti miklu máli til að koma í veg fyrir ofangreindar sýkingar en niðurstöður erlendra rannsókna um gildi staðlaðra hreinlætisaðgerða hafa verið misvísandi. Enn fremur hefur lítið verið vitað um faraldsfræði  og áhættuþætti þessara sýkinga hjá börnum á Íslandi hingað til.

Rannsóknirnar voru unnar á leikskólum í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi á árunum 1992-1999 og 2000- 2003 í samvinnu við innlenda og erlenda aðila og voru styrktar af Evrópusambandinu, RANNÍS og Landspítala.  

Að sögn Þórólfs voru sýkingar algengastar meðal ungra barna, sennilega vegna vanþroska ónæmiskerfis þeirra, og var tíðnin breytileg milli árstíða. Aðrir áhættuþættir voru breytilegir eftir tegundum sýkinga. Hreinlætisaðgerðir drógu ekki úr tíðni sýkinga eða útbreiðslu pneumókokka, sennilega vegna góðs undirliggjandi hreinlætis á íslenskum leikskólum.

„Niðurstöður verkefnisins sýna að öndunar- og meltingarfærasýkingar hjá börnum á íslenskum leikskólum eru algengar og er tíðni þeirra svipuð og í nálægum löndum. Þessar niðurstöður eru mjög ánægjulegar fyrir íslenskt samfélag. Þær sýna að þar sem undirliggjandi hreinlæti á leikskólum virðist gott þá virðist óþarfi að ráðast í dýrar og erfiðar hreinlætisaðgerðir með það fyrir augum að fækka sýkingum“, segir Þórólfur að lokum.

Leiðbeinandi: Haraldur Briem, dósent við Læknadeild.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is