Háskóli Íslands

Sýn foreldra á uppeldishlutverkið

Hrund Þórarinsdóttir, doktorsnemi við Uppeldis- og menntunarfræðideild

„Meginmarkmið rannsóknarinnar er að öðlast dýpri þekkingu og skilning á uppeldissýn íslenskra foreldra.  Áhersla verður lögð á að kanna viðhorf og gildi þeirra í uppeldishlutverkinu, markmið þeirra og uppeldisaðferðir og hvernig lífssaga þeirra tengist uppeldissýn þeirra,“ segir Hrund Þórarinsdóttir, doktorsnemi við Menntavísindasvið, um rannsókn sína.

Í rannsókninni hyggst Hrund þróa líkan til þess að greina uppeldissýn foreldra. Einnig kannar hún hvernig ungmenni upplifa uppeldisaðferðir foreldra sinna og hvernig það tengist framtíðarmarkmiðum og gildum ungmennanna í ljósiuppeldissýnar foreldra.

Hún bendir á að fjölskyldan gegni mikilsverðu hlutverki við að hlúa að og efla almennan þroska barna og ungmenna. Áríðandi sé að leggja góðan grunn að heilbrigðum og þroskavænlegum samskiptum foreldra og  barna. Það sé þýðingarmikið veganesti fyrir æskuna, bæði í samtíð og út í lífið, og um leið fyrir samfélagið. Brýnt sé að leita stöðugt að nýjum leiðum til að styrkja sem best foreldra í þessu ábyrgðarmikla hlutverki. „Bæði persónulegur og faglegur áhugi á uppeldishlutverki foreldra er kveikjan að doktorsrannsókn minni. Í háskólanámi mínu og störfum, m.a. kennslu og erindum um uppeldisaðferðir foreldra, varð mér ljóst hve lítið er til af íslenskum rannsóknum á þessu mikilvæga sviði og hve brýnt er að efla rannsóknir á uppeldissýn foreldra í alþjóðlegu samhengi,“ segir Hrund.

Hún telur að aukinn skilningur á viðhorfum foreldra til uppeldishlutverksins ætti að geta orðið mikilvægt fræðilegt framlag til rannsókna á uppeldissýn foreldra bæði hér á landi og á alþjóðavettvangi. „Niðurstöðurnar ættu jafnframt að geta lagt grunn að hagnýtum rannsóknum við að þróa árangursríka foreldrafræðslu og hafa gildi við stefnumörkun í foreldrafræðslu. Þannig er miðað að því að ávinningur rannsóknarinnar verði í þágu foreldra, barna þeirra og samfélags í víðari skilningi,“ segir Hrund enn fremur.

Hrund hlaut á vordögum 2011 styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands vegna rannsóknar sinnar. Sjóðurinn hefur það að markmiði að veita styrki til stúdenta í rannsóknartengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands.

Leiðbeinandi: Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor við Uppeldis- og menntunarfræðideild.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is