Háskóli Íslands

„Það var hrint mér!“ Ný setningagerð í íslensku

Sigríður Sigurjónsdóttir, dósent í Íslensku- og menningardeild

Undanfarin ár hef ég unnið að rannsóknum á nýrri setningagerð sem komin er upp í íslensku,“ segir Sigríður Sigurjónsdóttir, dósent í íslenskri málfræði við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Hún vinnur að því að reyna að varpa ljósi á eðli og upptök þessarar nýjungar í málinu.

„Algengt er að börn og unglingar segi setningar eins og „Það var hrint mér í skólanum í dag“ og „Hér var sýnt Ronju.“ Eldra fólki finnst þessar setningar yfirleitt óeðlilegar og myndi frekar segja: „Mér var hrint í skólanum í dag“ og „Hér var Ronja sýnd,“ segir Sigríður. „Hér er um að ræða setningafræðilega málbreytingu sem samkvæmt niðurstöðum rannsókna virðist vera algeng í máli yngra fólks,“ bætir hún við.

„Niðurstöður viðamikillar rannsóknar sem ég gerði í félagi við Joan Maling, prófessor við Brandeis-háskóla í Bandaríkjunum, á þessari nýjung í málinu veturinn 1999–2000, bentu til að meirihluta nemenda í 10. bekk þætti slíkar setningar eðlilegar. Eldra fólk samþykkti hins vegar yfirleitt ekki slíkar setningar.“ 

Sigríður segir að hjá unglingunum hafi hlutfall jákvæðra svara verið breytilegt eftir landshlutum. „Reykjavíkursvæðið vestan Elliðaáa skar sig úr að því leyti að þar voru unglingar um helmingi ólíklegri til að samþykkja slíkar setningar en unglingar í úthverfum höfuðborgarsvæðisins, þ.e. austan Elliðaáa, og úti á landsbyggðinni.“ Sigríður segir að í niðurstöðum rannsóknarinnar hafi verið leiddar líkur að því að sá munur sem kom fram á svörum unglinganna tengist félagslegum þáttum, eins og menntun foreldra og námsárangri nemenda.

„Ég vinn nú að því að rannsaka þessa setningagerð, sem virðist vera notuð á svipaðan hátt og þolmynd í málinu, í máli barna á leikskólaaldri. Með því vonast ég til að geta varpað einhverju ljósi á eðli og upptök nýju setningagerðarinnar í málinu en talið er að upptök málbreytinga megi oft finna í máltöku barna þegar ung börn sem eru að byggja upp málkerfi sitt túlka upplýsingar í málumhverfinu á annan hátt en fyrri kynslóðir.“

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is