Háskóli Íslands

Þróar nýjar aðferðir í meðgönguvernd

Emma Marie Swift, doktorsnemi við Hjúkrunarfræðideild

Ljósmæður gegna lykilhlutverki við fæðingarundirbúning kvenna en starf þeirra hefur að markmiði að sinna líkamlegri og andlegri heilsu móður og barns í gegnum barnseignarferlið. Þetta þekkir Emma Marie Swift, ljósmóðir og doktorsnemi í ljósmóðurfræði með áherslu á lýðheilsuvísindi, en hún vinnur nú að rannsókn sem miðar að því að auka þekkingu á viðhorfum og væntingum íslenskra kvenna sem eiga von a sínu fyrsta barni.

„Sú þekking verður nýtt til að aðlaga og þróa nálgun í meðgönguvernd sem byggist meðal annars á hópumönnun með aukinni fræðslu og stuðningi við verðandi foreldra. Rannsóknin miðar að því að athuga hvort slík nálgun geti haft jákvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu kvenna og eflt trú konunnar á eigin getu til að fæða án inngripa,“ segir Emma sem hlaut styrk til doktorsrannsóknarinnar úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.

Emma bendir á að erlendar rannsóknir sýni að konur með mikinn fæðingarótta séu líklegri til að nýta inngrip í fæðingum sínum en þetta hafi ekki verið rannsakað hér á landi. Hún segir að í starfi sínu sem ljósmóðir hafi hún kynnst mikilvægi þess að undirbúa konur vel fyrir fæðinguna sem og foreldrahlutverkið. „Til þess að geta sinnt þessu hlutverki sem best er mikilvægt fyrir ljósmæður að skilja til hlítar hvort og þá hvernig fæðingarótti íslenskra kvenna hefur áhrif á ákvarðanir þeirra og hvernig megi á markvissan hátt styðja þær í gegnum barneignarferlið,“ segir hún.

Emma bendir á að inngripum í fæðingar hafi fjölgað mjög í hinum vestræna heimi. „Þrátt fyrir að inngrip geti verið lífsnauðsynleg getur of hátt hlutfall inngripa í fæðingar haft í för með sér skaða fyrir móður og barn. Árlega er gefin út skýrsla um tíðni algengustu inngripa á Íslandi en við höfum ekki ítarlegt yfirlit yfir þróun og áhrifaþætti algengustu inngripa í fæðingar hér á landi,“ segir Emma sem hyggst bæta úr þeim skorti í doktorsverkefni sínu.

Rannsókn Emmu er á byrjunarstigi en það stendur ekki á svari þegar hún er innt eftir gildi rannsóknarinnar fyrir  vísindin og samfélagið. „Niðurstöðurnar geta nýst við framþróun innan meðgönguverndar með frekari áherslu á stuðning við verðandi foreldra þar sem leitast verður við að minnka ótta kvenna sem eiga von á sínu fyrsta barni, auka við fræðslu og stuðning og þannig jafnframt auka vellíðan þeirra á meðgöngu.“

Leiðbeinendur: Helga Gottfreðsdóttir, dósent við Hjúkrunarfræðideild, og
Helga Zoega, dósent við við Læknadeild.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is