Háskóli Íslands

Þróar súrefnismettunarmæli fyrir augu

Kévin Bernard, doktorsnemi við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild

„Markmið verkefnisins er að búa til súrefnismettunarmæli fyrir augu sem nýtist til að mæla súrefnisástand miðtaugakerfis manna sem hafa orðið fyrir alvarlegum áverkum eða sjúkdómum og eru í losti,“ segir Kévin Bernard, doktorsnemi við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild.

Greining á losti og súrefnisástandi miðtaugakerfis skiptir sköpum um meðferð og horfur sjúklinga í ástandi eins og Kévin lýsir. Súrefnismettunarmælirinn kemur til með að nýtast bráðaliðum í sjúkrabílum og á gjörgæsludeildum til að meta ástand miðtaugakerfisins á auðveldan hátt.

Augnbotninn er beintengdur við heilann sem þýðir að hann veitir mikilvægar upplýsingar um ástand hans. „Blóðið sem rennur um augun kemur frá hálsslagæðinni sem einnig sér miðtaugakerfinu fyrir blóði. Staðbundinn blóðskortur í auga felur í sér skort á blóðflæði til miðtaugakerfisins. Hugmyndin er að nota  upplýsingar sem felast í endurkasti ljóss í augnvef til að segja til um súrefnismettun blóðs í hálsslagæðinni,“ segir Kévin en hann er frá Frakklandi.

Lokahluti verkefnisins felur í sér að smíða tæki sem kæmi í stað hefðbundinna súrefnismettunarmæla sem oftast mæla súrefnismettun blóðs úr fingrum eða eyrum. Við áfall eða slys dregur úr blóðflæði til útlima sem takmarkar notkunarmöguleikana. Nýja tækinu er ætlað að virka við þessar aðstæður.

Kévin hlaut á vordögum 2011 styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands vegna rannsóknar sinnar. Sjóðurinn hefur það að markmiði að veita styrki til stúdenta í rannsóknartengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands.

Leiðbeinandi: Jón Atli Benediktsson, prófessor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is