Háskóli Íslands

Ummah í Atlantshafi

Kristján Þór Sigurðsson, doktorsnemi við Félags- og mannvísindadeild

„Múslimar á Íslandi segjast ekki verða fyrir hliðstæðum viðhorfum hér og annars staðar á Vesturlöndum. Þeir eru í það heila ánægðir með Ísland og Íslendinga," segir Kristján Þór Sigurðsson, doktorsnemi í mannfræði.

Yfirþjóðlegt samfélag múslima í heiminum nefnist „ummah" sem er arabíska og þýðir þjóð á íslensku. „Stundum er talað um að íslam sé hugmyndakerfi sem sé hafið yfir þjóðríki og þjóðfélagshópa og að henni fylgi mjög sterk jafnræðishugmynd. Sem dæmi er þjóðmenning Pakistana og Marókkóbúa mjög ólík en „ummah" sameinar þá alla," segir Kristján.

Kristján rannsakar m.a. hvort samfélag eða samfélög múslima á Íslandi séu grundvöllur fyrir ákveðna gerjun sem hægt er að flokka sem séríslenskt samfélag múslima. „Í Félagi múslima á Íslandi eru menn sem búið hafa hér í um 30 ár og líta á sig sem Íslendinga. Sumir þeirra hafa tileinkað sér íslenskan húmor og skjóta „jæja," og „já já," inn í arabískuna eins og Íslendingar þótt móðurmál þeirra sé arabíska."

Kristján nýtur velvildar samfélags múslima á Íslandi sem hann tengist bæði sem nemandi í arabísku og kennari í íslensku. „Ég vona að rannsóknin stuðli að aukinni þekkingu á þjóðfélagshópi múslima sem geti leitt til aukins skilnings og vonandi til aukins umburðarlyndis um leið enda byggjast fordómar oftast á vanþekkingu og hræðslu við hið óþekkta," segir hann að lokum.

Leiðbeinandi: Unnur Dís Skaptadóttir, prófessor í mannfræði. 

Kristján hlaut doktorsnemastyrk úr Rannsóknasjóði 2009.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is